140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:20]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að lesa þennan texta. Með leyfi forseta ætla ég að lesa síðustu setningarnar:

„Stjórnlagaráð hefur skilað Alþingi tillögum að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.“ — Það var gert í haust. — „Verði það lagt fram sem frumvarp á Alþingi fær það þá meðferð sem lýst hefur verið,“ þ.e. þrjár umræður. Það verður farið eftir þingsköpum. Kom eitthvað annað til greina? Ég hvet ykkur til að skoða aðeins þennan feril. Frumvarpið kemur frá stjórnlagaráði sem menn eru búnir að fara yfir hversu gott var. Það er ekkert gert með það. Það er ekkert unnið í því, það er ekkert rýnt, ekkert skoðað. Síðan er komið hingað með eins óskýrar spurningar og hægt er sem allir munu geta túlkað eins og hver vill. Síðan ætla menn að vinna úr því og ef marka má þetta mun þjóðin aldrei fá að segja sitt álit. Hér koma menn upp og flytja hástemmdar ræður um að þetta sé lýðræðislegt. Ég held að ekki sé hægt að hafa þetta (Forseti hringir.) minna lýðræðislegt en þann hráskinnaleik sem hér er verið að samþykkja af meiri hlutanum.