140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:31]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að sú ákvörðun sem Alþingi kann að taka nú á eftir, ef það verður meiri hluti fyrir henni, sé ekki góð ákvörðun. Ég tel að það hefði verið skynsamlegra fyrir okkur að klára þessa vinnu, klára það að búa til drög að nýrri stjórnarskrá, taka tillit til allra þeirra sem hafa lagt í púkkið í þeirri vinnu, m.a. stjórnlagaráðs og annarrar vinnu sem hefur farið fram innan veggja Alþingis. Síðan hefði átt að senda þá tillögu útfærða og úthugsaða til þjóðarinnar í ráðgefandi atkvæðagreiðslu og þá hefði þingið getað fengið hana til baka til sín, unnið með hana og haldið áfram með hinn stjórnskipulega feril. En það er ekki góður bragur á því fyrir Alþingi Íslendinga að senda þetta mál svo illa undirbúið að meira að segja þarf að fara yfir í einhvers konar leiðréttingarvinnu frá því að við tökum þessa ákvörðun núna og þar til kemur að þessari ákvörðun. Alveg sérstaklega er þetta slæmt þegar um er að ræða (Forseti hringir.) grundvallarlög þjóðarinnar, stjórnarskrána sjálfa.