140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[20:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Yfirlýst markmið aðlögunarstyrkjanna, IPA-styrkjanna og þess prógramms sem þeir koma út úr, er að ríkin sem eru í aðlögunarferli verði tilbúin á þeim tímapunkti þegar þessum viðræðum á að vera lokið og séu þá búin að breyta stjórnsýslu sinni, aðlaga stjórnkerfið, lagarammann og allt það því Evrópusambandi sem bíður. Ég vil leyfa mér að segja að markmiðið með þeim aðlögunarstyrkjum sem Ísland er að fá miðað við þau verkefni sem ég hef séð — nú tek ég enn og aftur fram að þessi verkefni eiga fullan rétt á sér og allt það — sé eitthvað allt annað en að gera stjórnsýslu og annað tilbúið þegar og ef að inngöngu kemur.

Ég verð að segja að ég fæ eldfjallagarð eða hvað þetta heitir ekki til að ganga upp þannig að það skipti máli eins og mér finnst hugmyndin frábær og vona svo sannarlega að af henni verði — án aðstoðar Evrópusambandsins.

Það er kannski bjartsýni, ég veit það ekki, en markmið aðstoðarþegans, þ.e. Íslands — nei, ég bara hreinlega get ekki svarað þessari spurningu. Ég get engan veginn gert mér grein fyrir markmiði íslenskra stjórnvalda með því að þiggja þessa styrki þegar mér sýnist þeir ekki fara í þau verkefni sem talin eru upp. Megnið af styrkjunum er að minnsta kosti ekki að fara í þau verkefni sem talin eru upp í þeim leiðbeiningum sem ég hef séð um þessa IPA-styrki. Við erum hins vegar að nota eitthvað af þessum aurum í verkefni sem hefur lengi legið fyrir að Íslendingar mundu fara í og þyrftu að fara í, eins og varðandi Hagstofuna.