140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[20:49]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mér finnst þetta mjög spennandi umræðuefni, sérstaklega í ljósi þess sem stendur í samningnum sjálfum, að sjóðurinn sem Evrópusambandið bjó til sé til þess gerður að veita umsóknarríkjum fjárhagsaðstoð til að gera pólitískar, efnahagslegar og stjórnsýslulegar umbætur í því skyni að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Þetta er í hróplegu ósamræmi við það sem kom fram í máli hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar hér fyrr í dag.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann hvort honum þyki eðlilegt að í þessum samningi sé lögð mikil áhersla á að kynna og sýna það að ESB hafi styrkt þau verkefni sem fjármunir fara í úr þessum sjóði. Hver er tilgangurinn með því að leggja svona mikla áherslu á að nafn Evrópusambandsins komi fram þegar verið er að fjalla um þau verkefni sem hljóta styrki samkvæmt þessum samningi? Hver getur verið tilgangurinn hjá ESB með því að hamra á því að kynna það í bak og fyrir að Evrópusambandið sé að koma með fjármagn inn í þessi verkefni?