140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[21:33]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu en höfum rætt fyrr í þessari umræðu um IPA-styrki frumvarpið sem kemur fram í kjölfarið á þingsályktunartillögunni. Samkvæmt mínum kokkabókum hefði frumvarpið kannski ekki átt að koma fram fyrr en þingsályktunartillagan hefði verið samþykkt og í kjölfar þess hefði undirritaður rammasamningur kannski átt að líta dagsins ljós.

En hér er öllu umsnúið. Byrjað var á því að gera rammasamning milli Íslands og Evrópusambandsins. Hann var síðan í felum. Þá settu menn við fjárlagagerðina inn styrki upp á tæpar 600 milljónir sem voru keyrðir í gegn og samþykktir af meiri hlutanum. Í kjölfarið á því, hálfu ári eftir að þessi verknaður var allur um garð genginn, eru þingsályktunartillaga og frumvarp lögð fram á sama tíma, nú á þessu ári.

Ég átel þessi vinnubrögð harðlega. Ég vildi gjarnan heyra álit framsögumanns og formanns utanríkismálanefndar, hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, á því hvort þetta sé verklag sem eigi að viðhafa, hvort það sé viðhaft, hvort það hafi verið viðhaft áður og verði viðhaft aftur, eða hvort um sé að ræða undantekningartilvik, að menn hafi séð að sér og komi til þings auðmjúkir og biðjist afsökunar á að hafa klúðrað málum með þessum hætti og lofi því að slíkt gerist aldrei aftur. Mér finnst mikilvægt að þetta komi fram.

Mér finnst líka mikilvægt að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, framsögumaður og formaður utanríkismálanefndar, skýri það verklag sem viðhaft er í utanríkismálanefnd fyrir okkur hinum en trúnaður ríkir um það sem þar fer fram eins og við þekkjum. Varðandi það verklag sem viðhaft er við umræðu, í lok umræðu og síðan þegar mál eru tekin úr nefndum spyr ég hvort eðlilegt verklag hafi verið viðhaft þegar málið var afgreitt frá nefndinni og hvort algengt sé að það sé gert með þessum hætti, eða hvort um sé að ræða undantekningu og menn muni sjá að sér og biðjast afsökunar á þessu og lofa að slíkt gerist ekki aftur. Mér finnst mikilvægt að við hér í þinginu áttum okkur á því hvort þetta verklag sé almennt viðurkennt og almennt viðhaft.

Þingsályktunartillagan er sem sagt lögð fram í framhaldi af rammasamningi sem var undirritaður 8. júlí á síðasta ári. Samningurinn fylgir sem fylgiskjal með tillögunni.

Í sjálfri þingsályktunartillögunni segir, með leyfi forseta:

„Það er venja að alþjóðastofnanir gera samninga við yfirvöld þeirra ríkja (gistiríkja) sem þær eru staðsettar í.“

Nú vil ég spyrja: Er þetta eðlilegt? Þessi sama spurning kom fram í andsvörum hér áðan hjá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur. Ég tel fullkomlega óeðlilegt að einn aðili sem er í samningaviðræðum við annan beri fé á mótaðilann. Það hlýtur að vera fáheyrt. Ég trúi því ekki sem stendur í þingsályktunartillögunni að venja sé að gera alþjóðasamninga á þann hátt að fé sé borið á annan aðilann. Í því sambandi er líka vert að hafa í huga að annar aðilinn er 27 þjóðríkja tollabandalag með 500 milljóna íbúamarkað en hinn er lítið land með rúmlega 300 þúsund íbúa. Ég trúi því ekki að þetta sé alsiða, að þetta sé venja sem menn séu sáttir við.

Á bls. 2 er inntak samningsins dregið saman. Það hefur nú kannski ekki verið farið mikið yfir það, en ég ætla að hlaupa yfir það. Inntak samningsins er fólgið í eftirtöldum atriðum: stjórnun IPA-aðstoðar, almennum skilyrðum fyrir styrkveitingum, styrkhæfi verkefna, viðmiðunum um mótframlög, útboði verkefna, gegnsæi í vali, sýnileika verkefna, tímabundinni dvöl útlendinga sem bjóða í, undanþágu IPA-styrkja frá opinberum gjöldum — sem kemur fram í frumvarpinu sem við höfum rætt áður og er í átta greinum, þar sem fram koma allar mögulegar og jafnvel óhugsandi aðstæður þar sem þeir sem koma inn í þetta land fá undanþágur frá öllum opinberum gjöldum — yfirumsjón, eftirliti og endurskoðunarheimildum, fráviki og vörnum gegn misferli og úrlausn ágreiningsmála.

Samningurinn skiptist í fimm þætti. Auk almennra ákvæða í inngangi tekur hann til stjórnunarþátta, reglna um fjárhagsaðstoð, reglna um framkvæmd aðstoðarinnar og eftirlits með meðferð þess fjár sem móttekið hefur verið. Í 8. gr. í IV. þætti, um framkvæmd verkefna, kemur fram að framkvæmdastjórnin annist stýringu á aðstoð við Ísland. Ég verð að viðurkenna að þetta þarf útskýringar við. Ég skil þetta ekki alveg. Í framhaldinu segir:

„Kemur það til af því að aðstoð við Ísland er í samanburði við önnur umsóknarríki afar takmörkuð.“

Er þessi setning skýringin á því sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson lýsti hér í ræðu sinni, eða hvort það var í andsvari, þ.e. að umsókn Íslendinga um aðild að Evrópusambandinu væri mjög eðlisólík umsóknum annarra umsóknarríkja?

Fjallað er um það að framkvæmdastjórnin annist þá umsjón sem stjórnvöldum í öðrum umsóknarríkjum sé gert að sinna sjálfum. Við erum sem sagt í samningaviðræðum við Evrópusambandið og Evrópusambandið sjálft annast stýringu á aðstoð við Íslendinga, við samningsaðilann, ef ég skil þetta rétt. Síðan er fjallað um fjármögnunarsamninginn sem er þessi IPA-aðstoð.

Allt er þetta dálítið tormelt að mínu viti og ég verð að segja eins og er að þetta snertir siðferðisstreng í hjarta mínu sem ég tel hreint út sagt að menn eigi ekki að stíga yfir.

Í nefndaráliti 1. minni hluta — sem er undirritað af fjórum hv. þingmönnum og þar á meðal formanni nefndarinnar og framsögumanni, hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni — er fjallað um að verið sé að leita eftir heimild til Alþingis til að samþykkja þennan rammasamning. Það er löngu búið að undirrita þann samning og búið að samþykkja ákveðin framlög í fjárlögum og nú fyrst er verið að leita eftir heimild til þess að gera þetta. Þetta er nú svolítið sérstakt.

Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Samningurinn er gerður í samræmi við regluverk ESB og fjallar í stórum dráttum um viðtöku IPA-styrkja og eftirlit með ráðstöfun þeirra, en sams konar samningur hefur verið gerður við öll ríki sem sótt hafa um aðild að ESB eftir 1994, auk Tyrkja.“

Aðeins neðar stendur:

„Enginn hluti IPA-aðstoðar rennur því til að greiða skatta eða önnur opinber gjöld.“

Ég spyr: Hvað finnst þingmönnum um þetta? Ég spyr sérstaklega hv. þingmenn Vinstri grænna hvað þeim finnist um að í gangi séu samningaviðræður þar sem fé er borið inn í samningslandið og engir skattar greiddir af því, engin gjöld, engin opinber gjöld.

Í nefndaráliti 2. minni hluta — sem er undirritað af hv. þingmönnum Ragnheiði Árnadóttur, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Sigurgeir Sindra Sigurgeirssyni, sem sat hér sem varaþingmaður í fjarveru hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar — er fjallað um tilganginn og hvernig ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar í utanríkismálanefnd hafa afgreitt þetta mál. Þar stendur, með leyfi forseta:

„… aðildarumsókn Íslands til Evrópusambandsins leiðir ekki til þess eins að unnt sé að „kíkja í pakkann“ í Brussel heldur er óhjákvæmilegt að laga innviði umsóknarríkisins, lög og stjórnsýslu að kröfum ESB. Afgreiðsla tillögunnar úr utanríkismálanefnd og afstaða 1. minni hluta sýnir að ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar hafa gefist upp við að hylma yfir hið rétta eðli aðildarumsóknarinnar, hún hefur leitt til aðlögunarferlis. IPA-styrkir eru veittir umsóknarríkjum til að standa undir kostnaði við aðlögunina.“

Ég vil líka staldra við hér og velta því fyrir mér af hverju í ósköpunum þingmenn stjórnarmeirihlutans, sem aðhyllast bæði aðildarviðræðurnar og þessa IPA-styrki, geta ekki viðurkennt að um aðlögun sé að ræða. Mér hefði fundist það miklu hreinlegri umræður.

Áfram segir í áliti 2. minni hluta, með leyfi forseta:

„Annar minni hluti telur að hvorki ESB-umsóknin sjálf né aðlögunarviðræðurnar gefi tilefni til að samþykkja þennan samning eða setja sérstök lög um framkvæmd hans.“

Hér vil ég einnig staldra við og segja: Það finnst mér ekki heldur. Mér finnst ekki ástæða til að þiggja styrki þegar við erum í aðildarviðræðum við Evrópusambandið sem ég hefði svo sem heldur ekki viljað vera í. Ég hef engan áhuga á að ganga í Evrópusambandið og tel að það þjóni ekki hagsmunum Íslands best.

Rétt er að rifja upp, af því sú umræða hefur spunnist hér, ekki síst í andsvörum við hv. þm. Mörð Árnason sem hefur gengið nokkuð hart fram, að þessir IPA-styrkir eru ætlaðir í mjög góð verkefni. Sú spurning vaknar hvort verið sé að koma þingmönnum í mjög erfiða og kannski óleysanlega klípu þegar búið er að samþykkja fjárlög og ef ég hef skilið stjórnarliða og hv. þm. Mörð Árnason rétt þá falla verkefnin niður falli IPA-styrkirnir niður. Ég hefði hallast að skilningi hæstv. utanríkisráðherra við 1. umr. þessa máls, og kemur líklega fram í nefndaráliti við frumvarpið sjálft, að ef IPA-styrkirnir féllu niður mundi kostnaðurinn falla á ríkissjóð.

Ég tel rétt að rifja það upp þegar við fyrir nokkrum áratugum vorum mun fátækari en við erum í dag. Þrátt fyrir allt höfum við lifað mun svartari tíma og við þurfum ekki að horfa lengra aftur en 100 ár, jafnvel 80 ár. Í síðari heimsstyrjöldinni buðust Bretar til að leggja bæði heitt og kalt vatn og tengja í öll hús gegn ákveðnum fríðindum, gegn því að fá aðgang að auðlindinni og hafa tögl og hagldir í því hvernig íbúar Reykjavíkur yrðu þjónustaðir. Um þetta urðu harðar deilur á þeim tíma. Þar voru aðilar sem töldu að þarna værum við að fá allt fyrir ekkert. Þar voru aðilar sem töldu að nú væri verið að rétta okkur hjálparhönd, okkur sem þyrftum svo sannarlega á því að halda. En sem betur fer, ég held að það sjái það allir í dag, sagði fólk: Við viljum stjórna þessu sjálf. Við höfum vissulega minni fjármuni en breska heimsveldið en við viljum gera þetta sjálf á okkar hraða, samkvæmt okkar getu. Auðvitað er það þannig með þessi góðu verkefni að við ættum sjálf að standa á bak við þau. Ef við teljum þau vera góð og horfa til framfara þá eigum við sjálf að standa fyrir þeim.

Lýðræðið kostar. Meiri hluti þingsins samþykkti hér í dag að fara í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem kostar um 250 milljónir. Kostnaðurinn við allt það ferli sem meiri hlutinn hefur farið í í sambandi við breytingar á stjórnarskrá er þar með orðinn meiri en milljarður. Lýðræðið kostar. Það kostar líka að vera sjálfs síns herra.

Ég vil minna á að það verkefni sem talsvert hefur verið fjallað um í þessu sambandi, Kötlu jarðvangur, sem snýr að þróun og eflingu atvinnu og byggðaþróun á Eyjafjallajökulssvæðinu, er mjög jákvætt verkefni. Það er annað verkefni í 20/20 áætlun ríkisstjórnarinnar, svokölluð Kirkjubæjarstofa, sem mun kosta yfir milljarð þegar upp er staðið. Hún var sett í forgang af sunnlenskum sveitarfélögum. Hvað sagði meiri hlutinn? Hvað var meiri hluti þingsins í fjárlagagerðinni tilbúinn að setja mikla fjármuni í það verkefni? 25 milljónir. 250 milljónir voru settar út í dag til að spyrja þjóðina fimm spurninga sem ekki voru endilega bestu spurningarnar eða þær nauðsynlegustu og alveg örugglega ekki allar þær álitaspurningar sem þarf að spyrja. 25 milljónir voru þeir tilbúnir til að setja í þetta.

Ég hef um nokkurt skeið unnið að þingsályktunartillögu en ekki haft tíma til að leggja hana fram hér á vorþingi, mun væntanlega gera í haust. Hún er um sértækar aðgerðir sem grípa þarf til á þessu svæði þar sem Kötlujarðvangsverkefnið, Kirkjubæjarstofa, virkjanir, efling landbúnaðar, efling samgangna, eru allt lykilatriði til að styrkja byggð á þessu svæði. Það verkefni þarfnast nokkurra fjármuna. Þeir koma ekki allir í einu, ekki miðað við stöðuna eins og hún er. En ef raunin er sú að mikill meiri hluti þeirra sem eru hér inni telur þessi verkefni afar góð þá býst ég við stuðningi við slíka þingsályktunartillögu þar sem um er að ræða sértækar aðgerðir og einhverja framkvæmdaáætlun og fjármögnunaráætlun sem tryggir að hægt sé að snúa við íbúaþróun á þessu svæði. En að við séum háð því að samningsaðili, risi sem er í aðildarviðræðum við, viðræðum sem eru verulega umdeildar, skipta þjóðinni í tvennt og valda deilum í ótrúlegustu málum — ég neita að trúa því að það sé forsenda fyrir því að hægt sé að koma til stuðnings þessum byggðum. Ég neita að trúa því að það sé forsenda fyrir því að hægt sé að halda úti byggð í landinu að teknir séu inn IPA-styrkir sem eru hluti af því að laga íslenskt samfélag að Evrópusambandinu. Ég trúi því ekki. Ég mun alla vega hvetja menn til að fara í siðferðislega skoðun á því hvort það sé rétt verklag.

Það hefur komið til tals að á síðustu dögum, og ég þekki það sjálfur, hafi áróðursrit verið send heim til allra þar sem meðal annars er sagt frá þeim styrkjum og möguleikum sem Evrópusambandið býður upp á, að boðið sé upp á sérstaka ráðgjafa og námskeið til að kenna fólki að sækja um þessa styrki.

Ég nefndi það í stuttu andsvari í dag og ætla aðeins að koma inn á það undir lok máls míns að í landbúnaði í Danmörku — Danir eru mjög nákvæmir, skrá allt niður, eru mjög nákvæmir í bókhaldi og vinnuskýrslum — er haldið utan um það hversu mikill tími fer í hvaða verkefni, alveg frá því að Danir gengu inn líklega 1974.

Sá tími sem fer í pappírsvinnu við ýmislegt, þar á meðal umstang í kringum Evrópusambandið, hefur aukist um einhverjar mínútur á hverju einasta ári allt frá því Danir gengu þar inn. Ef ég man rétt er það komið yfir tvo klukkutíma á dag sem danski bóndinn þarf að sitja inni og fylla út umsóknir, fara á námskeið, skila inn pappírum til að geta lifað eðlilegu lífi í landbúnaðarstyrkjakerfi Evrópusambandsins. (Gripið fram í.) Er það sú framtíðarsýn sem talað er um í þessum áróðursritum? (Gripið fram í.) Þeir segja ekkert um það. Þeir tala bara um hina góðu styrki og möguleika sem menn geta nýtt sér. Þeir tala ekkert um það að verið sé að breyta starfinu úr því að vera starf sem byggist á því að auka framleiðni, að auka þá möguleika sem við höfum hér á Íslandi.

Ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið að auka íslenska landbúnaðarframleiðslu um 10%. Nú er hún búin að vera við völd í þrjú ár og það sést ekki tangur né tetur af slíkri stefnumörkun eða slíkum ræðum frá hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Það hefur ekkert sést til slíkra hugmynda hjá þeim. Ekki neitt. En við höfum þann möguleika að stórauka landbúnaðarframleiðslu okkar og nota tíma fólksins í að vinna og framleiða og búa til útflutningstekjur, en sitja ekki inni við tölvur og skýrslugerð, umsóknir og eyðublöð, í að fara á námskeið, í pappírsvinnu. Finnar hafa upplifað þetta líka eftir að þeir gengu inn og eru farnir að átta sig á því.

Það er mín skoðun að frá 2009 hafi orðið verulegar breytingar — ég ætlaði að fara aðeins yfir stöðuna í Evrópu — á Íslandi. (Forseti hringir.) Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir lagði fram fína tillögu í utanríkismálanefnd um daginn. Ég held að (Forseti hringir.) við ættum að fara að skoða það og hafna þessum IPA-styrkjum (Forseti hringir.) og koma okkur út úr því klúðurslega ferli sem við erum búin að koma okkur í.