140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[21:54]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu ræðu og þakka honum fyrir að hafa farið yfir það verkefni sem verið hefur aðeins í umræðunni í kvöld varðandi Kötlu jarðvang. Ég og hv. þingmaður erum samþingmenn úr Suðurkjördæmi og við þekkjum vel þann byggðavanda sem blasir við í byggðunum austan Markarfljóts, sérstaklega Skaftárhreppi. Mig langar að lýsa yfir ánægju minni og fagna því að við þingmenn Sunnlendinga sem öll stöndum saman um það að vilja bæta hag íbúa á þessu svæði höfum fengið aukinn liðsstyrk og skilning hér í þinginu vegna þess að hv. þm. Mörður Árnason mun væntanlega styðja okkur í baráttu okkar miðað við þær umræður sem fram hafa farið hér í kvöld.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, í tengslum við þann samning sem liggur til grundvallar málinu sem er til meðferðar í kvöld, hvaða skoðun hann hefur á því að Evrópusambandið skuli leggja svo mikla áherslu á að tryggja sýnileika aðstoðar ESB. Hvers vegna telur hv. þingmaður að áhersla ESB á sýnileika aðstoðarinnar sé svo áberandi? Hvers vegna er það til dæmis mikilvægt varðandi verkefnið Kötlu jarðvang að öllum sé kunnugt um að ESB styrki verkefnið? Hver er tilgangurinn að baki því? Ég vísa þar sérstaklega til 10. gr. samningsins og e-liðar 1. mgr. 5. gr. samningsins.