140. löggjafarþing — 106. fundur,  25. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[00:52]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson fór vítt og breitt yfir þetta mál í ræðu sinni og m.a. kastaði hann fram spurningum sem hann vildi fá svör við. Hann spurði sérstaklega um það hvort búið sé að greiða út eitthvað af þessum styrkjum. Ég svaraði þeirri spurningu í svari mínu við andsvari frá hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrr í þessari umræðu. Það hefur ekki verið gert enda er forsenda þess að þau þingmál sem hér er um að ræða verði samþykkt af hálfu Alþingis.

Síðan vil ég segja að yfirlit yfir þessi verkefni er að finna í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn frá hv. þm. Baldri Þórhallssyni á þskj. 1788 frá 139. löggjafarþingi. Þar kemur meðal annars skýrt fram að öll verkefni í þessari landsáætlun séu valin með tilliti til þess að þau nýtist óháð aðild að Evrópusambandinu. Þar er m.a. talað um verkefni eins og Hagstofuna, Matís o.fl. sem ég gæti kannski farið betur yfir (Forseti hringir.) í síðara andsvari.