140. löggjafarþing — 106. fundur,  25. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[00:53]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið um að ekkert hafi verið greitt út af þessum styrkjum, en ég hafði spurt um það mjög að gefnu tilefni, vegna þess að maður hefur orðið þess áskynja að stofnanirnar eru auðvitað farnar að ganga út frá því að þessir styrkir verði veittir. Það er kannski ekkert óeðlilegt að menn hugsi þannig þegar liggur fyrir að íslensk stjórnvöld hafa gert þennan samning og þetta hefur sömuleiðis verið samþykkt í fjárlögum þó að ekki verði hægt að greiða styrkina út fyrr en þessi lög hafa verið samþykkt.

Varðandi styrkina verð ég að segja eins og er að mér finnst þetta vera dálítið ruglingslegt í þeim þingskjölum sem liggja fyrir, bæði í skýrslu utanríkisráðherra og í tillögunni. Ég mun auðvitað kynna mér það skjal sem hv. þingmaður vísaði til. Ég átta mig til dæmis ekki alveg á því hvort verið sé að tvítelja í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra styrkina til Hagstofunnar. Það er auðvitað eitthvað sem hægt er að upplýsa hér í umræðunni og þegar lengra líður á hana.