140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[13:48]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það var fróðlegt andsvar sem hv. þm. Atli Gíslason veitti hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni áðan vegna þess að það fjallaði um meðferð málsins á þinginu og af hverju málið er komið í þessum búningi núna frá fjárlaganefnd sem er ekki fagnefnd um þá hluti sem þetta fyrst og fremst varðar.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvað hann og fjárlaganefndin hafi lagt upp úr þeirri afgreiðslu sem hér fór fram á faglegan hátt. Hún var þannig, hvort sem maður er sammála henni eða ekki, að samgöngunefnd mælti með því að þetta hlutafélag yrði stofnað. Það væri tvennt, annars vegar að félagið ætti að standa algjörlega undir kostnaði sem til félli vegna verkefnanna sem um er að ræða og hins vegar að það væri skilningur nefndarinnar að engin bein ábyrgð félli á ríkissjóð samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.

Með leyfi forseta:

„Er það því skilningur nefndarinnar að engin bein ábyrgð verði felld (Forseti hringir.) á ríkissjóð samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.“

Skoðaði fjárlaganefnd þetta? Ef hún gerði það hvernig hefur hún þá (Forseti hringir.) hlýtt þessum fyrirmælum frá samgöngunefnd á þinginu?