140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[13:57]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Þetta svar hæstv. ráðherra var sama loðmullan og fyrri ásakanir í einkunnagjöf varðandi þann þingmann sem hér stendur, (Innanrrh.: Þú hafðir fallið á prófinu.) þar sem hæstv. ráðherra var að reyna að gefa hv. þingmanni sem hér stendur falleinkunn fyrir að vitna í útvarpsfréttir frá 27. janúar 2011. (Innanrrh.: … forsendurnar réttar.) Ég hjó hins vegar sérstaklega eftir því að hæstv. ráðherra svarar því í engu hvernig hann ætlar að framfylgja þeim samþykktum sem Alþingi hefur gert í tvígang varðandi fjárlög íslenska ríkisins. Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að fullnusta þá samþykkt sem Alþingi gerði um lánveitingu úr ríkissjóði til Vaðlaheiðarganga? Af hverju hefur hæstv. ráðherra ekki, í kjölfar þess bréfs til Vegagerðarinnar sem hann er að vitna hér til, komið jafnframt fram með tillögu um það að sú samþykkt sem Alþingi gerði í fjárlögum 2012 og 2011 verði dregin til baka? (Gripið fram í: Hann verður að leysa upp félagið, forsendurnar eru brostnar.)