140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[14:14]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrirvari hv. þingmanns lýtur einmitt að stærstu tölunum í þessu, þ.e. í fyrsta lagi óvissunni um endurfjármögnun og í öðru lagi hvert vaxtastigið verður. Ríkisábyrgðasjóður færir fyrir því rök að vaxtastigið gæti orðið 6–7% og þar með væri ljóst að rekstrarforsendur ganganna yrðu gjörbreyttar miðað við það sem upp er lagt í frumvarpinu sjálfu. Það finnst mér vera kjarni málsins.

Ég hefði talið að skynsamlegt væri fyrir ríkissjóð að koma þess vegna fram með sitt framlag upp á kannski 2 milljarða kr. sem svaraði til þessara 20% og þannig yrði óvissunni eytt, má segja, um það hvort fyrirtækið gæti risið undir fjárfestingarkostnaði upp á 10 milljarða kr. Þá væri fjárfestingarkostnaðurinn væntanlega orðinn 20% lægri. Það hefði ég talið vera miklu eðlilegri og skynsamlegri leið eða fara þá leið sem kveðið er á um í lögunum um ríkisábyrgð, þ.e. að ríkisábyrgðarþeginn leggi fram 20% eigið fé — það getur vel verið að það sé ofviða þeim aðilum sem vilja standa að þessum göngum en þá hefði (Forseti hringir.) verið eðlilegt að mínu mati að ríkissjóður gerði það einfaldlega með fjármunum, 2 milljörðum kr. Það væri frá sjónarhóli (Forseti hringir.) ríkisins ágætisniðurstaða, að mínu mati, að fá 10 milljarða (Forseti hringir.) framkvæmd en leggja bara til 2 milljarða.