140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:18]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og ég er sammála honum um það að málið á að sjálfsögðu fullt erindi til umhverfis- og samgöngunefndar og ætti það á milli umræðna, finnst mér, en þetta frumvarp snýr fyrst og fremst að lánveitingu ríkisins vegna framkvæmdanna og þá er auðvitað eðlilegt að það fari til fjárlaganefndar. En ég tek hjartanlega undir það að mér finnst að umhverfis- og samgöngunefnd ætti að gefast kostur á að gefa umsögn um það hvaða þýðingu þetta hafi meðal annars fyrir aðrar framkvæmdir.

Þingmaðurinn spyr mig um mína forgangsröðun varðandi jarðgangaframkvæmdir. Verði Vaðlaheiðargöng að veruleika og fari þau sem fyrsta framkvæmd á dagskrá finnst mér ekki spurning að Dýrafjarðargöng hljóti að verða næsta jarðgangaframkvæmd sem brýnasta byggðamálið. Ef við erum að tala um að jafna, vera með samfélagslega brýnar samgönguframkvæmdir í ýmsum landshlutum, hljótum við að horfa á fleiri en einn landshluta í því samhengi þannig að mín óskaniðurstaða væri þá Dýrafjarðargöng næst og Norðfjarðargöng í kjölfarið eða Dýrafjarðargöng og Norðfjarðargöng samhliða. Báðar þær framkvæmdir eru þó mjög brýnar og verður vart á milli séð á hvorri liggur meira en mitt hjarta slær að sjálfsögðu með Dýrafjarðargöngum þar sem ég hef ekið Hrafnseyrarheiðina og þurft að fara Dynjandisheiði við erfiðar aðstæður.

Þegar litið er til vegaframkvæmda tel ég brýnt að gefa innspýtingu í tengivegina. Það er atvinnuskapandi og bætir ástandið víða um land. Brýnustu (Forseti hringir.) framkvæmdirnar sem ég sé í augnablikinu eru þær sem hafa verið mest í umfjöllun upp á síðkastið, vegurinn um Árneshrepp og Vestfjarðavegur 60, en nú vill svo vel til að það hafa verið veittir góðir fjármunir í Vestfjarðaveg 60 og hann er á góðri áætlun.