140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:29]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Niðurstaðan í nefndaráliti því sem ég mælti fyrir áðan er þetta sem hv. þingmaður endaði á að segja, þ.e. að málið fari aftur inn í hv. samgöngunefnd. Það er mín skoðun að þetta verkefni sé ekki hægt að flokka sem einkaframkvæmd. Þetta er bara ríkisframkvæmd. Það hefur komið mjög skýrt fram í meðförum fjárlaganefndar á málinu. Ríkisábyrgðasjóður, Ríkisendurskoðun, allir sem komu fyrir nefndina voru sammála, það er niðurstaðan, þetta er ekki einkaframkvæmd, þetta er ríkisframkvæmd.

Ég minni líka á nýjustu útgáfu Seðlabankans þar sem Seðlabankinn færir þetta verkefni úr því að vera einkaframkvæmd í ríkisframkvæmd vegna þróunar verkefnisins. Það sem ég legg til ásamt hv. þm. Illuga Gunnarssyni er að málið fari aftur inn í hv. samgöngunefnd og fái þar nauðsynlega umfjöllun vegna þess að hv. umhverfis- og samgöngunefnd er fagnefnd þingsins um þessi mál og líka í kringum samgönguáætlunina.

Þegar fjallað er um þau mál spyr ég hv. þingmann hvort hún telji það bara ekki alveg öruggt að það sem er talið þessu verkefni til tekna sé greiðsluvilji hjá íbúunum gagnvart því að setja á veggjöld. Getur hv. þingmaður tekið undir það með mér að það verði bara vegið og metið í hv. samgöngunefnd hvers virði það sé gagnvart því að fara í þessa framkvæmd og síðan aðrir þættir sem eru auðvitað neikvæðir gagnvart umferðaröryggi og framkvæmdum sem eru auðvitað mikilvægari út frá samgöngum? Þær eru margar og hv. þingmaður nefndi margar þeirra í sinni ræðu. Er hv. þingmaður sammála mér um niðurstöðu okkar nefndarálits að málið eigi að fara aftur í þennan faglega farveg í umhverfis- og samgöngunefnd og síðan muni umhverfis- og samgöngunefnd raða inn í þá samgönguáætlun þegar hún er afgreidd?