140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:32]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Mig langar að taka þátt í þessari umræðu og lýsa því sérstaklega yfir að ég er ánægður með þá framkvæmd sem um ræðir og vil sérstaklega fá að gera grein fyrir því hér í ræðustól hvaða atriði það eru sem ráða afstöðu minni. Þetta mál er oft tekið sem dæmi um einhvers konar landsbyggðarmál eða kjördæmistengt mál sem tengist sérstaklega hagsmunum Norðausturkjördæmis. Sjálfur er ég þingmaður Suðurkjördæmis og styð málið engu að síður vegna þess að ég tel það þjóðhagslega þarft af allmörgum ástæðum.

Það er talið upp í nefndaráliti, og greint frá því hér, að samhliða viðskiptaáætlun og áætlun um umferðarþróun til langs tíma er ekki búið að leggja mat á þjóðhagsleg og samfélagsleg atriði eins og afleiddan sparnað af minnkandi slysatíðni, betri tengingu atvinnusvæða og lægri viðhaldskostnaði og endurfjárfestingarþörf á vegkaflanum um Víkurskarð. Þetta eru geysilega mikilvæg atriði. Það sem er ekki síður mikilvægt er að með þessari framkvæmd verða til um 210 ársverk á framkvæmdatímanum, auk þess sem áætlað er að allt að 30 afleidd ársverk bætist við vegna framkvæmdarinnar. Þannig eru hátt í 300 ársverk tengd verkefninu í heild með tilheyrandi áhrif á vinnumarkað og atvinnuleysi.

Við þurfum ekkert að leita lengra en á forsíðu Morgunblaðsins í dag til þess að sjá þar viðtöl við forsvarsmenn stéttarfélaga þar sem þeir kvarta undan aðgerðaleysi í atvinnumálum og hversu þarft það sé að ráða bót á atvinnuleysisvandanum. Þó að árangur sé að nást á því sviði má gera betur ef duga skal.

Hér er verið að tala um það hvort á ferðinni sé einkaframkvæmd eða opinber framkvæmd. Ég tel mjög mikilvægt að við nefnum hlutina réttum nöfnum í þessum efnum. Í mínum huga leikur enginn vafi á því að um opinbera framkvæmd er að ræða. Þetta er framkvæmd af hálfu ríkisins. Hún er engu að síður tekin út úr samgönguáætlun. Það er alveg rétt sem hér hefur verið sagt hvað það varðar, en það eru ákveðnar ástæður sem liggja því til grundvallar. Þessi framkvæmd er til dæmis frábrugðin öðrum göngum að því leytinu til að þarna eru íbúar á svæðinu og sveitarfélög sem að þessu verki standa reiðubúin til að greiða veggjöld. Það er frumforsenda málsins. Ríkið ætlar að taka lán og lánið verður endurgreitt með innheimtu veggjalda.

Ýmsir hafa séð ástæðu til að draga í efa þær forsendur sem liggja rekstraráætlun til grundvallar og þær forsendur sem liggja endurgreiðslu lánsins til grundvallar. Það er alveg klárt í mínum huga að standist þær forsendur ekki er hægt að lengja í innheimtu veggjalda og lengja þannig í fjármögnuninni. Að þessu leytinu til, sem er gríðarlega mikilvægt, hefur þessi framkvæmd ekki áhrif á niðurröðun annarra verkefna samkvæmt samgönguáætlun eða fjármögnun þeirra.

Ekki er hægt að sjá fyrir sér að við gætum flýtt Dýrafjarðargöngum eða Norfjarðargöngum með sambærilegum hætti. Ekki er hægt að sjá fyrir sér að umferð um þau brýnu samgöngumannvirki — og ég dreg ekki úr mikilvægi þeirra — verði það mikil að hægt sé að innheimta veggjöld eða fjármagna þá framkvæmd með sambærilegum hætti og Vaðlaheiðargöng.

Ekki er heldur hægt að sjá fyrir sér að jafnmikil áhrif verði á möguleika á nýsköpun í atvinnulífi eins og tengingin á milli þeirra atvinnusvæða sem um ræðir með tilkomu Vaðlaheiðarganga. Vaðlaheiðargöng eru á mjög stóru atvinnusvæði þar sem mikill fjöldi fólks býr og þar sem atvinnuástandið hefur ekki verið nægilega gott og mikil þörf er á innspýtingu. Auk þeirra starfa sem verða til með framkvæmdinni sjálfri má því búast við því að stytting vegalengda og tenging atvinnusvæða hafi í för með sér virðisaukandi áhrif og auki möguleikana á nýsköpun í atvinnulífi. Það er alveg klárt mál í mínum huga.

Ég hef verið talsmaður þess innan umhverfis- og samgöngunefndar að í niðurröðun verkefna verði einkum horft til umferðaröryggis, að það sé haft sem mælikvarði á niðurröðun verkefna þannig að við séum að ákvarða með tilliti til þess hvernig við til dæmis röðum niður mögulegri styttingu á þjóðvegum, mögulegum gangaframkvæmdum o.s.frv. Það er enginn vafi í mínum huga á því að með þessari framkvæmd á þessu stóra atvinnusvæði og þar sem þessi mikli íbúafjöldi er erum við að gera það. Með því að taka Víkurskarðið út, sérstaklega að vetri til, erum við að bæta umferðaröryggi umtalsvert.

Ég er alveg sannfærður um að þótt fallegt sé að keyra um Víkurskarðið muni jafnfáir hlutfallslega aka það eftir göngin og reyndin varð með Hvalfjörðinn. Hvalfjörðurinn er gríðarlega fallegur, það þarf enginn að deila um það, en það eru afar fáir sem aka þá leið nema til þess að fara þá inn í botn til að njóta útivistar eða eitthvað slíkt, ekki nema menn hafi sérstaklega mikinn tíma á leið sinni suður og norður. Þó að það sé gaman þá gerir fólk það einfaldlega ekki á ferðum sínum þar.

Ég held líka að með nýtilkominni lengingu flugbrauta á flugvellinum á Akureyri og aukningu á komu ferðamanna til landsins muni byggjast upp með tíð og tíma mun öflugra millilandaflug á Akureyrarflugvelli en við sjáum í dag, að það eigi bara eftir að aukast og muni líka hafa í för með sér aukningu umferðar á þessu svæði.

Að öllu þessu sögðu finnst mér allt mæla með því að við ráðumst í þessa framkvæmd. Ég get alveg tekið undir það að ákveðin áhætta er í því fólgin, en möguleikarnir sem þessi framkvæmd skapar eru meira virði að mínu mati en áhættan sem hún getur falið í sér. Það er alltaf áhætta í opinberum framkvæmdum. Ég ætla bara að taka það fram að ég lít á þetta sem opinbera framkvæmd. Hún er bara fjármögnuð með öðrum hætti vegna þess að það er mögulegt þarna umfram aðra staði. Það væri óskandi að menn væru líka að gefa í á suðvesturhorninu, t.d. með tvöföldun á Suðurlandsvegi, t.d. með framkvæmdum við Sundabraut. Ég sé fyrir mér að það væri verkefni sem full þörf er á að fara í. Ég er þeirrar skoðunar að ríkið eigi að ráðast í þessar framkvæmdir eins og atvinnuástandið er núna, eins og efnahagsástandið er. Það er gríðarlega mikilvægt til að skapa störf, og koma fjármagni í umferð og á hreyfingu til að efla hagkerfið, að ríkið ráðist í framkvæmdir sem hvort eð er mun verða nauðsynlegt að gera fyrr eða síðar, ef ekki strax.

Að endingu vil ég, hæstv. forseti, lýsa yfir sérstakri ánægju með það mál sem hér er til umræðu og lýsa yfir fullum stuðningi við þá hugmynd sem hér er á ferð.