140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:48]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þar sem ekki eru samgöngumannvirki er ekki umferð. Það er kannski skýringin á því að ekki verður sama umferðarmagni til að dreifa í Vaðlaheiðargöngum annars vegar og á leiðinni sem Dýrafjarðargöng eiga að leysa af hólmi hins vegar vegna þess að sú leið er lokuð sex til níu mánuði ársins. Þá þrjá til sex mánuði sem leiðin er opin er hún stórhættulegur fjallvegur, malarvegur, með snjóflóðahættu og kröppum beygjum sem jafnast fullkomlega á við hinar kröppu beygjur upp að Oddsskarðsgöngum nema hvað vegurinn í áttina að Oddsskarðsgöngum er betri. Þetta er annað.

Mig langar að spyrja hv. þingmann. Telur hann, úr því að hann er þeirrar skoðunar að Vaðlaheiðargöng séu góð framkvæmd, ég get í sjálfu sér tekið undir það, þetta getur verið hin ágætasta framkvæmd, að það að taka hana út fyrir samgönguáætlun og setja hana þar með fremst í forgangsröðina hafi engin áhrif á forgangsröðun annarra framkvæmda? Finnst honum eðlilegt að ef einn kubburinn er tekinn úr hleðslunni hafi það engin áhrif, allt standi óhaggað eftir?

Við stöndum frammi fyrir stórum ákvörðunum um hvernig skuli raða næstu jarðgangaframkvæmdum, hvort þær verði Norðfjarðargöng eða Dýrafjarðargöng. Fyndist honum t.d. eðlilegt að Vaðlaheiðargöng og Norðfjarðargöng færu samtímis af stað á næsta framkvæmdatímabili samgönguáætlunar? Þetta er samviskuspurning. Ég er svolítið forvitin að vita hvað þingmaðurinn hefur um þetta að segja og þá um leið hvort hann telji að samgönguáætlun sé og eigi að vera algjörlega ósnortin af þeirri ákvörðun sem við stöndum frammi fyrir núna.