140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[16:00]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef einfaldlega litið til þess sem segir í nefndaráliti um fjármögnunina, svo að ég svari hv. þingmanni. Þar segir, með leyfi forseta:

„Áætlanir miðast við 3,7% fasta verðtryggða vexti fyrir báða þættina.“ — Þá er verið að vísa til fjármögnunarinnar og segir enn fremur: „Ef ekki tekst að fjármagna félagið á markaði á þessum eða betri kjörum er ljóst að bregðast þarf við því með því t.d. að ríkissjóður framlengi framkvæmdalánið þar til endurfjármögnun heppnast eða með öðrum hætti sem þurfa þykir til að kostnaður við framkvæmdina verði allur greiddur af tekjum af umferð um göngin.“

Þetta dugar mér ágætlega. Ef það er ekki neins virði að lýsa því yfir að ég beri pólitíska ábyrgð á málinu eftir sex ár og hv. þingmaður lítur svo á að ég verði þá löngu horfinn af vettvangi, það getur vel verið að svo verði, þá verður því miður svo að vera. Það sem við verðum að gera í þessu starfi og gera ráð fyrir er að ákvarðanir okkar séu byggðar á réttum forsendum og auðvitað brjóstviti.