140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[16:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi það fyrsta, að ekki sé auðvelt að standa á móti svona góðum verkefnum, hefur mér alltaf reynst það mjög auðvelt vegna þess að ég veit alveg hvaða afleiðingar þau hafa. Það þarf nefnilega einhver að borga þau, einhvern tímann, hvort sem verkefnið heitir Harpa, Perlan, háskólasjúkrahús eða Vaðlaheiðargöng, þetta þarf að borga. Ég hef alltaf í huga skattgreiðendur framtíðarinnar, börnin okkar, sem þurfa að borga slóðann sem við skiljum eftir. Þetta er ekkert erfitt fyrir mig og á ekki að vera erfitt fyrir aðra þingmenn, heldur horfandi upp á Grikkland og stöðuna í öllu Evrópusambandinu. Það á ekki að vera erfitt. Skuldsetning ríkissjóða, skuldsetning fyrirtækja og sveitarfélaga og skuldsetning einkaheimila er ógæfa. Það er einfalt. Þótt það geti verið voðalega gott að kaupa sér nammi öðru hverju og fá eitthvað slíkt þurfa menn að huga að áunninni sykursýki o.s.frv.

Varðandi vegtolla. Það yrði gaman, herra forseti, að kanna það hjá Norðfjarðargöngum hvort fyrirtæki þar á svæðinu, ég nefni álverið og fiskveiðifyrirtækið, væru ekki til í að borga vegtolla. Þau hafa ekkert verið spurð að því. Það getur vel verið að þau mundu vilja borga vegtolla fyrir það að geta haft þetta sem eitt atvinnusvæði. Þetta eru stöndug fyrirtæki og það getur vel verið að þau vilji borga fyrir hvern bíl einhvern hundrað eða þúsund kall í gegnum Norðfjarðargöng í staðinn fyrir að fá miklu betri aðgang og annað slíkt. Þetta hefur ekkert verið kannað. Það geta fleiri borgað vegtolla en einstaklingar; fyrirtæki geta t.d. borgað skuggagjöld. Ég er viss um að þá væri strax hægt að réttlæta vinnslu Norðfjarðarganga.