140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:02]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi forgangsröðun samgönguverkefna sem margir hafa komið inn á hér þá erum við í umhverfis- og samgönguáætlun að raða verkefnum út frá samfélagslegum þáttum, byggðasjónarmiðum, umferðaröryggi o.fl. Ég hygg að í þeirri forgangsröðun séu til að mynda Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng framar í röðinni og talsvert mikið framar. Ástæðan fyrir því að ætlunin var að fara í þetta verkefni, eins og ég rakti, er að það átti að standa alfarið undir sér og mundi ekki kosta nein útgjöld úr ríkissjóði.

Mér sýnist málið vera með nákvæmlega sama hætti nú og þegar ég og hv. þingmaður fórum mjög vel yfir það í umhverfis- og samgöngunefnd og skiluðum af okkur í byrjun febrúar, forsendurnar hafa ekkert breyst. Ég sé ekki að þetta mál leysist, ef fara á í þessa framkvæmd, með öðrum hætti en þeim að það verði útgjöld úr ríkissjóði og þau geti orðið allveruleg og hlaupið á milljörðum.

Þá erum við farin að tala um opinbera framkvæmd og hún á þá að fara í þessa forgangsröðun sem er í vinnslu í umhverfis- og samgöngunefnd og ekkert því til fyrirstöðu að vísa málinu þangað í ljósi þess að framkvæmdin stendur ekki undir sér. Það er ekkert því til fyrirstöðu að fara í þessa forgangsröðunarvinnu og skoða hvernig verkefnum skuli raðað, enda hefur sú vinna verið viðhöfð um árabil að menn skoði málin út frá hinum og þessum sjónarmiðum. Þetta er (Forseti hringir.) algjör nýlunda og eðlilegt að það fari í venjubundinn farveg.