140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:09]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að eðlilegast væri að vísa þessu máli í heild sinni til umhverfis- og samgöngunefndar, vinnslunni allri en ekki eingöngu framkvæmdatímanum. Það væri langeðlilegast því að þetta er opinber framkvæmd. Þá yrði verkefnið tekið með í þá vinnu í umhverfis- og samgöngunefnd sem ég og hv. þingmaður tökum þátt í. Þar takast ólík sjónarmið á út frá umferðaröryggi og byggðasjónarmiðum.

Hv. þingmaður nefnir að Reykjavíkurþingmönnum sé oft legið á hálsi fyrir að standa á móti vegaframkvæmdum í hinum dreifðu byggðum. Þetta er allt umræða sem við tökum þegar við ræðum um samgönguáætlun, ég og hv. þingmaður. Við erum ekki endilega sammála. Ég hygg að forgangsröðun í samgöngumálum og hversu mikið eigi að taka tillit til umferðaröryggissjónarmiða, byggðamála og félagslegra þátta sé nokkuð sem ég og hv. þingmaður séum ekki sammála um, langt í frá. En þá umræðu tökum við þegar samgönguáætlun er unnin og þar sem þetta verkefni stendur ekki undir sér á það að fara í heild sinni þangað. Ég er nánast viss um að ég og hv. þingmaður munum ekki ná alfarið saman um þau mál því að ég tel að við eigum að forgangsraða í þágu hinna dreifðu byggða og leggja höfuðáherslu á að koma bundnu slitlagi á vegi til sveita, til allra staða á landinu og það sé forgangsverkefni áður en við ráðumst í stórframkvæmdir þar sem fyrir eru lágmarkssamgöngur. Þetta er allt umræða sem við tökum í umhverfis- og samgöngunefnd og þess vegna á þessi umræða heima þar en ekki hér.