140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:20]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Í ljósi þess að Vaðlaheiðargöng að mínu mati og margra annarra hér í salnum standa ekki undir sér fjárhagslega og munu þýða útgjöld úr ríkissjóði og eru þar af leiðandi opinber framkvæmd, eiga þau að fara í vinnslu samgönguáætlunar. Það hefur komið fram, bæði í ræðu minni og andsvörum, að ég tel að bæði Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng séu framar í röðinni þegar við horfum til samfélagslegra þátta, byggðamála o.fl. Norðfjarðargöng koma fyrst, síðan Dýrafjarðargöng og loks Vaðlaheiðargöng, það er hárrétt, af þessum þrennum göngum.

Ég tel eðlilegast að þessu máli verði vísað til samgönguáætlunar og um leið væri eðlilegast að Norðfjarðargöng færðust framar og einnig Dýrafjarðargöng. Það liggur alveg ljóst fyrir að ef raðað er út frá þeim forsendum sem við erum að raða eftir er ég alveg sammála hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni um að þetta sé röðin: Norðfjarðargöng, Dýrafjarðargöng og Vaðlaheiðargöng. Ég held að þetta sé eitthvað sem menn geti sætt sig við og (Forseti hringir.) þá væru Dýrafjarðargöng og Norðfjarðargöng að færast framar.