140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:28]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil koma upp og taka undir þær óskir hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur að eðlilegast væri að ræða í heild samgönguáætlun og eins það sem hefur komið fram að ríkisstjórnin ætlar að fara í miklar fjárfestingaráætlanir í samgöngumálum, og að þau mál væru fyrr á dagskránni en þetta mál eða að minnsta kosti samhliða. Það segir sig sjálft að það er mjög óeðlilegt að taka þetta mál fram fyrir. Það væri eðlilegra, og ég tek undir þær óskir hv. þingmanns, að við mundum fjalla um samgönguáætlunina, þær hugmyndir sem hafa komið fram um fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar og þetta mál samhliða. (Gripið fram í.) Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir er formaður umhverfis- og samgöngunefndar svo ég leiðrétti það. Það er mjög mikilvægt að gera það með þeim hætti þannig að við getum átt eðlilega umræðu um þessi mál í heild sinni en tökum ekki þetta mál fram fyrir eins og hér er gert.