140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:50]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessu máli er í fyrsta lagi nú þegar lagt til að ríkið leggi fram hlutafé í gegnum Vegagerðina. Í öðru lagi tel ég að þannig eigi að haga málum að það verði tryggt að það sé að fullu búið að fjármagna verkefnið og ekki farið af stað fyrr en lánsfjár hefur verið aflað. Sama áhættan verður að sjálfsögðu áfram til staðar, hvort sem menn fara þessa leið eða ekki, en ef kostnaður verður meiri en ætlað var er í það minnsta búið að lækka þá tölu sem ríkisvaldið leggur inn í verkefnið. Ef menn trúa því að lánið verði allt að fullu greitt hljóta menn líka að trúa því að hlutafé verði varið.

Hér er um að ræða vegaframkvæmd sem á að fjármagna með veggjöldum. Þetta er nýtt fyrirkomulag hjá okkur og það sem ég er að benda á kallar líka á að við þurfum að setja upp, með leyfi forseta, strúktúr til að halda utan um slíkt. (Forseti hringir.) Þetta er ekki eitthvað sem menn geta notað sem fordæmi fyrir hverju sem er, hér er um það að ræða að leggja veg og taka veggjöld (Forseti hringir.) og ríkið er framkvæmdaaðilinn og eigandinn.