140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[18:04]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg sama hvað ég segi eða geri í Vaðlaheiðarmálinu eða einhverju öðru, ég held að það verði ágreiningur á Alþingi og mér er til efs að við náum 100% samstöðu um þetta mál frekar en nokkurt annað. Ef þingmaðurinn telur mögulegt að ná 90 eða 100% samstöðu um mál þá er ég ansi viss um að við mundum ekki afgreiða mikið en það er annað mál.

Ég sakna þess svolítið að fá ekki efnislega umfjöllun um álit Ríkisendurskoðunar. Þingmaðurinn hélt langa tölu um að verið væri að sniðganga ríkissjóð, að haga ætti þessu með öðrum hætti o.s.frv. en láðist að nefna hið jákvæða álit sem kom frá Ríkisendurskoðun um hvernig haga ætti málum í þessum efnum — þær athugasemdir sem þeir gáfu fyrir fjárlaganefnd. (IllG: Hvaða álit var það?) Þeir gáfu álit sitt fyrir fjárlaganefnd og mig minnir að þingmaðurinn hafi setið á þeim fundi.