140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[18:38]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Mér kann að hafa misheyrst en mér heyrðist hv. þm. Höskuldur Þórhallsson segja að hann teldi að samgöngunefnd hefði ekki haft heimild til að fjalla um þetta mál. Mig langaði bara að vita hvort ég hefði heyrt rétt og á hvaða forsendum hv. þingmaður teldi að samgöngunefnd hefði ekki haft fulla heimild til að taka þetta mál upp að eigin frumkvæði og hvort hv. þingmaður líti ekki á þetta mál sem samgöngumál.

Mig langaði einnig að spyrja hv. þingmann þar sem Vegagerðin hefur sagt að það sé ekki æskilegt að ráðast í tvenn göng samtímis, æskilegra sé að þau fylgi í kjölfarið hvert af öðru. Telur hv. þingmaður rétt að hunsa þessi varnaðarorð Vegagerðarinnar eða telur hann það rétt að hlusta eftir þeim og taka þau alvarlega?

Ef hann telur rétt að hunsa þau ekki heldur taka þau alvarlega, hvort telur hann að ráðast eigi í Vaðlaheiðargöng hið snarasta eða að flýta Norðfjarðargöngum? Reyndar er það svo að það er álitamál hjá ýmsum hvort eigi að fara fyrst í Dýrafjarðargöng eða Norðfjarðargöng. Hins vegar dettur ekki nokkrum einasta manni í hug að Vaðlaheiðargöng eigi að vera fyrst. Ef við ætlum að taka þessi varnaðarorð Vegagerðarinnar alvarlega, hvaða göng álítur hv. þingmaður þá að eigi að koma fyrst?

Í annan stað — ég ætla reyndar að bíða með þá spurningu því að ég sé að ég er að falla á tíma og ekki í fyrsta sinn.