140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[22:08]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hvort áður hafi verið fallið frá þessum reglum sem eru í lögum um ríkisábyrgðir. Ég get því miður ekki svarað því, ég bara veit það ekki hvort það hefur verið gert áður. En ég held að það hljóti að hafa verið fullgild ástæða þegar þær voru settar því að eins og við munum eru þetta ríkisábyrgðir, við þurfum líka að rifja upp að einu sinni var um að ræða bæjarábyrgðir eða ábyrgðir frá sveitarfélögunum. Það var náttúrlega algerlega vonlaust eins og það var eða það var alla vega mjög erfitt að vinna eftir því.

Ég vil líka staldra við og velta því upp í þessari umræðu: Hvaða fordæmi hefur þetta inni í framtíðina? Ég held að það sé áleitnasta spurningin í þessum efnum. Ég kom inn á það í ræðu minni hvort við hefðum ekkert lært af því sem gerðist sem allir tala um og hafði auðvitað alvarlegar afleiðingar, þ.e. af svokölluðu hruni, eins og sagt er, eða hruninu. Ég held að menn séu hættir að pexa um það hvort það hafi orðið eða ekki en auðvitað hafði það alvarlegar afleiðingar. En hvað erum við að gera hér? Við erum nákvæmlega á sömu leið og bankarnir voru þegar þeir tóku mikla áhættu og fjármögnuðu til skamms tíma. Það er nákvæmlega það sem er að gerast.

Hv. þingmaður spurði líka: Hvað óttast fjárfestar? Ég held að þeir óttist ekkert í raun og veru. Ég held hins vegar að fjárfestarnir leggi bara blákalt mat á fjárfestinguna sem slíka, hvort hún standi undir sér eða ekki. Þess vegna segi ég fullum fetum að það er mjög umhugsunarvert að í því umhverfi sem núna er skuli ekki fást fjárfestar að þessu verkefni. Ég held að þeir hljóti bara ekki að hafa neina trú á því að verkefnið gangi upp miðað við forsendurnar sem settar eru fram.