140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

fréttir um brot hjá rannsakendum.

[10:50]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Að sjálfsögðu þarf eftirlitið að fara fram í samræmi við lög og reglur og því fylgir ábyrgð að fara með það vald sem eftirlitsaðilar hafa og ég held að þeim sé sú ábyrgð vel ljós. Allir sem telja á sér brotið í þeim efnum geta leitað réttar síns eins og ég sagði. Það er útkljáð eftir þeim farvegi sem við erum væntanlega sammála um og munum þá bera ágreining um slíkt undir dómstóla ef svo ber undir.

Það er auðvitað mikilvægt líka að mál séu rannsökuð og þeim sé fylgt eftir og ég get tekið undir að það er áhyggjuefni hve fá meint gjaldeyrisbrotamál hafa gengið áfram í gegnum réttarkerfið. Það kann að tengjast því að það voru skipulagsbreytingar hjá viðkomandi aðilum, þ.e. efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra var sameinuð embætti sérstaks saksóknara, og vonandi er það ávísun á að þessi mál komist á fastari skorður. Ég bind vonir við það.

Varðandi skýrslubeiðnina aftur þá er það alveg rétt að það tók miklu lengri tíma en ætlunin var að afla gagna eða reyna að afla gagna til að hægt væri að svara skýrslunni. Viðamiklar bréfaskriftir fóru fram og til baka á milli (Forseti hringir.) ráðuneytisins, ríkisskattstjóra, skilanefnda bankanna og stjórna nýju viðskiptabankanna og sparisjóðanna, og ég geri ráð fyrir að þinginu verði gerð grein fyrir þeim bréfaskriftum öllum í skýrslunni.