140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[11:32]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja þar sem hv. þingmenn voru á undan mér. Gunnar Bragi Sveinsson og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson áttu orðaskipti um hvað þetta þýddi allt saman. Menn þurfa að átta sig á því hvað aðildarumsókn þýðir og mér fannst við margir hv. þingmenn skauta dálítið létt fram hjá þegar aðildarumsóknin var samþykkt 16. júlí 2009. Hún þýðir að mínu mati að þá sé stefna viðkomandi ríkis að ganga inn í Evrópusambandið. Í því felst umsóknin. Það liggur alveg fyrir hvert regluverk Evrópusambandsins er og hvað það þýðir að ganga þar inn þó að menn geti sagt að það sé hugsanlega hægt að fá einhverjar undanþágur frá einstaka atriðum sem tilheyra viðkomandi ríki en í megindráttum liggur alveg fyrir hvað er verið að gera þegar sótt er um aðild að Evrópusambandinu. Auðvitað er stefnan með umsókninni að viðkomandi ríki gangi inn í þetta bandalag, svokallað ríkjabandalag Evrópusambandsins.

Síðan hefur það komið fram í þessari umræðu, og síðast í almennum stjórnmálaumræðum hér í gær, að margt hefur breyst frá því að sótt var um, bæði hvað er að gerast í Evrópusambandinu og eins líka hvaða hættur eru þar á ferð og hvort Evrópusambandið verði áfram í sömu mynd og í dag. Það er mat margra að það muni þróast frekar í þá átt að vera eins konar ríki en ríkjabandalag. Fyrir því eru margar ástæður.

Styrinn hefur staðið um það að menn ræða oft í þessari umræðu hvort við séum í aðildarviðræðum eða aðlögun. Það deilumál sem við vorum með í umræðunni í þinginu 2009 tengist þeirri þingsályktunartillögu sem við erum að ræða hér, hvað þetta þýddi, hvort við værum að fara í einhvers konar aðlögun sem ósjálfrátt fylgir því að sækja um að mínu mati. Ef menn sækja um stefna þeir að aðild og þá þarf að undirbúa jarðveginn þannig að regluverkið sé aðlagað og líka stjórnsýslan að þeim veruleika sem tekur við þegar menn ganga í Evrópusambandið. Við munum það og þarf kannski ekki að rifja það mikið upp að þegar einstaka hv. þingmenn og jafnvel hæstv. ráðherrar voru í atkvæðaskýringum höfðum við ekki mikla trú á því að það væri skynsamlegt að ganga í Evrópusambandið en eigi að síður greiddu þeir atkvæði með umsókninni. Það var mjög sérkennilegt að byrja á því að gefa yfirlýsingar um það hvernig þetta væri gert.

Örstutt líka út af því sem kom fram í sambandi við svokallaðar EES-reglugerðir. Eftir því sem ég best veit hafa þær á undanförnum árum eða áratugum verið samþykktar umræðulítið, held ég í flestum tilfellum, í þinginu. Þá ber að halda því til haga sem vel hefur verið gert, það var gerð breyting í hv. utanríkismálanefnd á þessu kjörtímabili um að menn vönduðu sig og tækju efnislega umræðu um viðkomandi EES-reglugerðir áður en þær yrðu samþykktar í þinginu. Það tel ég jákvætt. Ég tók þátt í því í einni hv. nefnd, samgöngunefnd, áður en þingsköpunum var breytt að fjalla um ábendingar og umsagnir hjá hv. utanríkismálanefnd. Það held ég að hafi verið skref til mikilla heilla þannig að það er búið að gera ákveðnar breytingar í þessa veru sem ég tel jákvætt og því ber að halda til haga í þessari umræðu.

Það sem ég staldra við fyrst og fremst í þessu máli er að sá samningur sem hér er vísað til og fylgir þessari þingsályktunartillögu er gerður 8. júlí 2011. Þá er skrifað undir hann og maður spyr sig af hverju við erum að ræða hann inn á mitt ár 2012. Það hlýtur að vekja upp þá spurningu af hverju þetta hafi ekki verið gert fyrr. Auðvitað hefði verið eðlilegra að gera þetta miklu fyrr því að samkvæmt svokallaðri landsáætlun um útgreiðslu á IPA-styrkjunum liggur það ekki alveg skýrt fyrir, ég hef að minnsta kosti ekki getað áttað mig á því almennilega, hvort búið sé á árinu 2011 að greiða út hluta af þessum styrkjum og inn á árið 2012. Ef svo er hlýtur það að vekja upp þær spurningar hvort íslensk stjórnvöld hafi þá tekið við styrkjum á þeim tíma áður en búið var að samþykkja forsendur Evrópusambandsins til að taka við viðkomandi styrkjum. Þetta hlýtur að vera fyrsta spurningin sem vaknar miðað við tímastrúktúrinn í þessu máli. Eins og ég segi átta ég mig ekki alveg á því hvort búið er að greiða eitthvað út á árinu 2011 og hugsanlega 2012 áður en þessar samþykktir liggja fyrir.

Það endurspeglast kannski í fjárlagagerðinni fyrir árið 2011. Þessi umræða er ekki ný af nálinni og við skulum bara tala um hana eins og núna er. Við fjárlagagerðina kölluðum við eftir því í hv. fjárlaganefnd hvort það væru að koma svokallaðir IPA-styrkir sem annar stjórnarflokkanna hafði lengi vel talið að kæmi ekki til greina að taka við, a.m.k. einstaka hæstv. ráðherrar þess stjórnarflokks. Ég ætla svo sem ekki að blanda mér í þær innbyrðis deilur í þeim þingflokki hvort það sé í ályktun Vinstri grænna um hvort beri að hafna þeim eða taka við þeim með ákveðnum formerkjum. Aðrir eru betur til þess fallnir en ég.

Það vöknuðu strax þessar spurningar og það var mjög sérkennilegt að kalla líka fram þann kostnað sem fylgdi því að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þar held ég að hafi verið gerður feill þegar hann var ekki viðurkenndur eins og hann lá fyrir. Auðvitað kostar það fullt af tíma, orku og peningum að fylgja þessari umsókn sem er samþykkt Alþingis á sínum tíma. Mér er minnisstætt að þegar við spurðum haustið 2010 í einu ráðuneytinu, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, hvort peningar væru í ráðuneytinu til að vinna þá vinnu sem til var ætlast af því ráðuneyti voru svörin þau að það væru ekki eyrnamerktir peningar til að fylgja eftir þeirri vinnu sem Alþingi samþykkti með því að ákveða að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Hins vegar kom skýrt fram, og því var svarað mjög heiðarlega, að ef ætti að vera nægilegt fjármagn til að dekka þennan kostnað þyrfti það að vera á bilinu 50–60 milljónir. Það væri þá kostnaður ráðuneytisins við vinnu sem því væri ætlað að vinna. Auðvitað staldrar maður við þetta. Af hverju setja menn þetta ekki fram heiðarlega og segja: Það fylgir þessu verkefni að fara í þetta? Þeir eiga ekki að færa til starfsfólk sem á að sinna öðrum verkum og eru þar af leiðandi að fela ákveðinn kostnað. Þetta er auðvitað umhugsunarefni. Af hverju er þetta gert svona?

Væntanlega hefur verið skýr vilji hæstvirtra ráðherra á þeim tíma að þó að menn væru í vinnunni mætti ekki viðurkenna kostnaðinn. Þetta finnst mér hálfgerður feluleikur svo ég noti ekki sterkara orð. Auðvitað eiga menn að viðurkenna það. Það var engin ástæða fyrir ráðuneyti og hæstvirta ráðherra annað en að viðurkenna þann kostnað sem fylgdi þeirri vinnu sem var búið að taka ákvörðun um að Alþingi færi í. Um það var ekki deilt. Alþingi samþykkti að sækja um aðildina og allir gerðu sér grein fyrir því að það kostaði vinnu, tíma og annað hjá viðkomandi fagráðuneytum, meira hjá sumum en öðrum og í þessu tilfelli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.

Þetta gerðist hins vegar ekki við fjárlagagerðina fyrir árið 2012. Þá kom það mjög skýrt fram og ég verð að viðurkenna að það kom mér á óvart að þar var sett skýrt fram hvað stæði til að ná í af þessum IPA-styrkjum og hvernig bæri að ráðstafa þeim frá viðkomandi ráðuneytum. Það fannst mér umsnúningur miðað við það sem hafði verið áður. Þá hlýtur að vakna sú spurning, svo maður sé samkvæmur sjálfum sér, hvort þeir hv. þingmenn sem samþykktu fjárlögin fyrir árið 2012 með þessum skýru ákvæðum hafi vitað hvað þeir voru að gera. Þar var enginn feluleikur á bak við, það kom alveg skýrt fram í frumvarpinu innan einstakra ráðuneyta hversu há upphæðin væri og þá gerir maður auðvitað kröfu á þá hv. þingmenn sem samþykkja fjárlögin að þeir dragi aðeins andann áður en þeir fara að gera mjög alvarlegar athugasemdir við þetta mál. Það hlýtur að vera sanngirniskrafa. Þetta lá fyrir og í raun er hægt að segja að til þess að fjárlögin gangi eftir verði að samþykkja þetta mál hér. Í fjárlögum fyrir árið 2012 voru 496 millj. kr. áætlaðar í þetta.

Síðan getur maður velt fyrir sér hvort þetta sé heppilegt fyrirkomulag, þ.e. að sækja um þessa svokölluðu IPA-styrki. Þeim er úthlutað í ákveðin verkefni sem eru jafnvel á gráu svæði, fylgja að minnsta kosti ekki akkúrat markmiðunum sem koma fram í 1. gr. með samningnum um að aðlaga stjórnsýsluna, svo ég vitni í þetta orðrétt, með leyfi forseta, „sem fjárhagsaðstoð við umsóknarríki og hugsanleg umsóknarríki hvílir á, þ.e. fjárhagsaðstoð til að gera pólitískar, efnahagslegar og stjórnsýslulegar umbætur í því skyni að gerast aðilar að Evrópusambandinu“.

Mér finnst þetta markmið skýrt. Það má auðvitað toga og túlka svokallaðar stjórnsýslulegar umbætur en ég held að það megi velta fyrir sér hvort það hefði verið betra og skynsamlegra að gera það með öðrum hætti því að auðvitað könnumst við öll við þær ábendingar sem við höfum fengið um að það sé mjög mikilvægt að þetta mál nái fram að ganga vegna þess að til að tryggja framgang einstakra verkefna vítt og breitt um landið sem eru góð og mikilsverð þurfa þau að fá þann hluta af svokölluðum IPA-styrkjum sem gert er ráð fyrir í forsendum viðkomandi félaga. Það er umhugsunarvert hvort það hefði verið eðlilegra að setja þetta beint inn til ríkisins og útdeila því þá frekar þannig án þess að eyrnamerkja það þessum tilteknu hlutum. Ég held því ekki fram að þetta sé eitthvað á skjön við þessi markmið en þetta er umhugsunarvert. Þá gæti maður losnað við umræðuna um það. Einn hv. þingmaður, Jón Bjarnason, hefur reyndar talað um að það væri verið að bera fé á viðkomandi stofnanir til að breyta almenningsálitinu gagnvart Evrópusambandinu. Það er hluti af því sem við þurfum að hugsa um og líka hvort það hefði verið skynsamlegt.

Síðan er annað líka umhugsunarvert í þessu sambandi og það er kannski ekki bara í þessu eina máli, að þegar við erum að afgreiða mál sem þessi út úr nefndum eru það í þessu tilfelli fjórir hv. þingmenn sem afgreiða málið út og mynda svokallaðan 1. minni hluta. Þar eru tveir aðalmenn og tveir varamenn og þá setur maður spurningu við hvort við séum á réttri leið með vinnubrögðin að þessu leyti. Þá á ég ekki bara við þetta eina mál. Ég hef gert athugasemd við þetta í hv. fjárlaganefnd þar sem er búið að fjalla um mál kannski dögum og vikum saman og halda um það marga langa fundi og þegar það er síðan afgreitt eru kannski viðstaddir örfáir hv. þingmenn sem hafa tekið þátt í allri umræðunni um málið. Það eru kallaðir inn varamenn úr öðrum nefndum til að afgreiða málið út. Það er umhugsunarefni hvort þetta séu ekki vinnubrögð sem við þurfum einhvern veginn að forðast þegar mál eru afgreidd úr nefndum. Þá á ég við þessi stærstu mál en að vísu getur verið erfitt að leggja alltaf mat á hvað er stórt og hvað ekki. Ég held að við þurfum að taka til umræðu og umhugsunar í þinginu hvort ekki sé æskilegt að gera það þannig að sem flestir aðalmenn sem hafa tekið þátt í umræðunni og mætt á nefndarfundi séu viðstaddir þegar málið er tekið út. Þó að það liggi kannski fyrir að þeir geri ekki athugasemdir við úttekt á málinu blasir við að það voru gerðar athugasemdir við þetta mál og í raun og veru af 1. minni hluta. Þetta nefni ég ekki eingöngu út af þessu máli heldur líka þeim vinnubrögðum sem við þurfum að fara yfir og ræða vegna afgreiðslu mála út úr nefndum.

Ég sagði áðan að það kæmi skýrt fram að mínu viti hvert markmiðið væri og ég ætla að ítreka að ég held því ekki fram að þetta gangi gegn því markmiði. Ég nefndi áðan dagsetninguna og maður staldrar auðvitað líka við það af hverju þetta er gert svona. Það er skrifað undir 8. júlí 2011 og síðan er þessi þingsályktunartillaga og eins það lagafrumvarp sem er samhangandi við til að uppfylla þau skilyrði sem gerð eru til að geta tekið við IPA-styrkjunum, þ.e. það þarf að gera breytingar á skattalögum til viðbótar. Þá vaknar spurningin af hverju það kemur ekki fyrir tímann. Ég vitnaði áðan í 1. gr., að fjárhagsaðstoðin væri til að fylgja eftir pólitískum, efnahagslegum og stjórnsýslulegum umbótum í því skyni að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Enn fremur stendur í markmiðum samningsins, með leyfi forseta:

„2. Stuðningsaðgerðir skulu fjármagnaðar og hrint í framkvæmd í samræmi við þá lagalegu, stjórnsýslulegu og tæknilegu umgjörð sem mælt er fyrir um í samningi þessum og nánar er lýst í sviðstengdum samningum og/eða fjármögnunarsamningum, ef um þá er að ræða.

3. Aðstoðarþeginn gerir allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggt sé að framkvæmd allra stuðningsaðgerða sé viðeigandi og til þess að greiða fyrir framgangi áætlana þeim tengdum.“

Þarna staldrar maður við. Af hverju kom það þingmál sem hér um ræðir ekki fram fyrr, sérstaklega í ljósi þess að það er skrifað undir 8. júlí 2011? Mér hefði fundist eðlilegt að til að uppfylla skilyrði Evrópusambandsins til að fá þessa svokölluðu IPA-styrki hefði þetta mál verið afgreitt á haustþinginu 2011. Það hefði ég talið eðlileg vinnubrögð. Auðvitað þarf að svara því og það getur verið að því hafi verið svarað og það farið fram hjá mér. Ég hef ekki fengið svör, og ég hef kallað eftir þeim, um hvort búið sé að greiða út einhverja styrki 2011. Ég fullyrði ekki að svo sé en inn á árið 2012 hefur verið sagt að búið sé að greiða hluta af þeim samningum og meira að segja verið nefnd til ein stofnun sem er Hagstofan, að hún hafi þegið svokallaða IPA-styrki og að verið sé að framkvæma fyrir þá núna. Þá stoppar maður við og segir: Það er eðlilegra að menn klári öll þessi atriði áður en farið er að taka við styrkjunum. Síðan kemur fram í svokallaðri landshlutaáætlun hvernig á að taka á móti þessum 5 milljörðum sem eiga að fara inn að staðið hafi til að á árunum 2011 og 2012 yrðu þetta tæpir 2 milljarðar kr. ef ég man rétt. Þetta er sú spurning sem við verðum að svara og koma mjög skýrt fram í umræðunni. Það er nú einu sinni þannig að þó að við séum oft að deila um þetta pólitískt í þessum sal er verið að gera samning við Evrópusambandið um að taka við þessum styrkjum. Því fylgja ákveðin skilyrði sem við verðum að uppfylla samkvæmt þessum samningi og þess vegna hlýtur maður að staldra við og gera athugasemdir við það að þingmálin hafi ekki komið fyrr fram. Ég veit ekki nákvæmlega hver skýringin á því er en hún blasir einhvern veginn ekki við að mínu viti því að auðvitað hafa stjórnvöld verið upplýst um það þegar skrifað var undir samninginn 8. júlí. Það hefði verið eðlilegra að þessi mál hefðu komið fram í upphafi í fyrrahaust og verið afgreidd þá tímanlega þannig að hægt hefði verið að ganga til þeirra verka með því að taka við þessum IPA-styrkjum. Hvað sem okkur hverju og einu kann að finnast um þá eru þeir forsenda í fjárlögum og þá þarf auðvitað að ganga frá því á viðeigandi hátt.