140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

lengd þingfundar.

[15:08]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hæstv. utanríkisráðherra vill helst að við ræðum IPA-málin, heyrist mér fram á nótt, væntanlega til að um þau verði sem mest og best umræða. Til að svo megi verða hlýtur hæstv. utanríkisráðherra að taka þátt í þeirri umræðu. Eins og hv. þm. Magnús Orri Schram, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, hefur upplýst getur ekki átt sér stað djúp umræða um Evrópusambandið af hálfu stjórnarliðsins nema hæstv. utanríkisráðherra taki þátt svoleiðis að ef það á að vera eitthvert gagn í umræðunum, ef þessi tími fram á nóttina á að skila einhverju, hlýtur að minnsta kosti hæstv. utanríkisráðherra að þurfa að taka þátt í umræðunum en einnig held ég að það sé brýnt að fleiri ráðherrar geri það.

Fyrir fáeinum dögum bað hæstv. forsætisráðherra um að fundi yrði frestað hér vegna þess að hæstv. ráðherra þóttu ekki nógu margir komnir í salinn til að hlýða á mál sitt. Það sama hlýtur þá að eiga við þegar við erum að ræða önnur mál. Til að það verði eitthvert gagn í umræðunum, sama hversu lengi þær standa, til að menn þurfi ekki að endurtaka sig (Forseti hringir.) hljóta væntanlega stjórnarliðar að vera hér og taka þátt. (Utanrrh.: Þú getur sem sagt ekki haldið …)