140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[15:40]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er óhjákvæmilegt að bregðast við allmörgum atriðum sem komu fram í máli hv. þm. Atla Gíslasonar. Því miður leyfir tíminn ekki að gera það í stuttu andsvari þannig að margt af því mun ég geyma mér til síðari ræðu minnar.

Mér fannst því miður ræðan einkennast allt of mikið af hálfsannleik og að þingmaðurinn væri vísvitandi að leiða umræðuna á villigötur. Hann talaði og kallaði eftir viðbrögðum ESB-sinna og nefndi mig sérstaklega í því sambandi. Þingmaðurinn veit (Gripið fram í: Ertu að tala um …?) að ég — (Gripið fram í.) þingmaðurinn veit að ég er þeirrar skoðunar, eins og landsfundur Vinstri grænna hefur ályktað, að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan ESB en innan. Ég er líka þeirrar skoðunar að þessa umræðu eigi að taka í samfélaginu, um kosti og galla ESB-aðildar, og það eigi að leiða hana til lykta í gegnum það samningaferli sem Alþingi hefur samþykkt. Þingmaðurinn kann að vera ósammála mér um þetta, ég ber fulla virðingu fyrir skoðunum hans í þessu máli og ég ætlast til þess að það sé borin virðing fyrir mínum skoðunum.

Ég vil svo bara nefna það að þau dæmi sem þingmaðurinn nefndi hérna, eins og matvælalöggjöfin og fjórfrelsið, alveg sérstaklega, eru EES-mál og það veit þingmaðurinn. Aðlögun sem kann að hafa átt sér stað hvað þau varðar (Forseti hringir.) koma í gegnum EES-samninginn (Forseti hringir.) sem hér hefur verið í gildi í bráðum 20 ár.