140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:35]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir ræðu hans. Það er einstaklega mikilvægt og dýrmætt fyrir okkur þingmenn að fá þær upplýsingar sem hann sem fyrrverandi hæstv. ráðherra kemur með í þessa umræðu. Þingmanninum til hróss stóð hann í fæturna gegn þessu og eins og hann fór yfir í ræðu sinni spurði hann á ríkisstjórnarfundum hverju þessar styrkumsóknir ættu að byggja á vegna þess að engin lagafrumvörp eða þingsályktunartillögur lægju fyrir sem leyfðu slíkt.

Mig langar að inna hv. þm. Jón Bjarnason í framhaldi af þessum ummælum: Hvernig var þessum spurningum tekið við ríkisstjórnarborðið?

Farið var af stað með mikinn blekkingaleik um leið og sótt var um styrkina. Ég og fleiri þingmenn spurðum t.d. oft um það hvort ætti að taka við þessum Evrópustyrkjum, ekki bara IPA-styrkjunum heldur líka TAIEX-styrkjunum sem ég veit að fyrrverandi ráðherra kynnti sér mjög vel.

Hvernig datt ríkisstjórninni í hug að fara af stað með þetta verkefni áður en nokkur lagaheimild var fyrir því á þingi?

Flestir vita að hv. þingmaður þurfti að gjalda fyrir skoðanir sínar með ráðherrastól. Það hefur nú verið upplýst.

Hvaða spurningar fékk þingmaðurinn þegar hann fullyrti að þetta væru aðlögunarstyrkir en ekki styrkir vegna þess að við værum í umsóknarferli? Vill ekki hv. þm. Jón Bjarnason deila aðeins reynslu sinni með okkur í þessari umræðu? Þetta skiptir gríðarlega miklu máli nú þegar Evrópusambandið ætlar að koma hingað með 5 þús. millj. ísl. króna (Forseti hringir.) og demba yfir íslenska þjóð.