140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

barnalög.

290. mál
[15:20]
Horfa

Frsm. velfn. (Guðmundur Steingrímsson) (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrst nefna að velferðarnefnd barst mjög gagnleg umsögn frá Félagi um foreldrajafnrétti og fulltrúar félagsins komu jafnframt á fund nefndarinnar. Í raun var fjölmörgum tillögum þeirra mætt og þær líka ítarlega ræddar. Það er vissulega rétt að við förum ekki að ráðum Félags um foreldrajafnrétti þegar kemur að þessu atriði, hvað varðar skiptingu kostnaðar. Það var hins vegar ítarlega rætt og fór líka fram samræða við ráðuneytið um það mál en niðurstaðan varð sú að leggja ekki til breytingar á þessu, meðal annars var horft til þess að það er verið að endurskoða þetta umhverfi í heild sinni með endurskoðun á lagaumhverfinu um meðlagsgreiðslur. Það er verið að skoða skiptingu þessa kostnaðar annars staðar og það er líka mjög brýnt, eins og ég rakti áðan, að taka upp fyrirkomulag eins og jafna búsetu og tvöfalt lögheimili til að fara enn frekar í saumana á skiptingu réttaráhrifa og kostnaðar í þessu kerfi öllu. Það er brýnt að þessi heildarendurskoðun fari fram.

Ég legg áherslu á að í frumvarpinu er lögð til breyting á núgildandi löggjöf þar sem lagt er til að það verði ekki lengur meginreglan að kostnaður lendi á umgengnisforeldri heldur verði það meginregla að foreldrar semji um það. Það er mjög til bóta. En þótt það sé ekki lengur meginreglan að kostnaður lendi á umgengnisforeldri er vissulega óbreytt í lögum að sýslumaður skuli hafa það sem viðmiðunarreglu þegar hann þarf að skera úr um skiptingu kostnaðar, ef til ágreinings kemur, að kostnaður lendi á umgengnisforeldri. Hann getur hins vegar breytt því.