140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

almenn hegningarlög.

344. mál
[16:38]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég byrja á því að þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir nefndarálitið og kem nú í ræðustól þar sem ég var fjarverandi þegar nefndarálitið var samþykkt úr nefndinni. Ég kem hér til að lýsa yfir samstöðu með þessu nefndaráliti og tel það sem hér er lagt til af hinu góða. Ég held að það sem við erum að innleiða í íslenskan rétt, ákvæði samnings Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun, skipti verulegu máli. Það er líka merkilegt, og ég legg áherslu á það, að frumvarpið felur í sér þær breytingar á lögsögureglu laganna að refsað skuli eftir íslenskum hegningarlögum fyrir brot íslenskra ríkisborgara eða manna sem búsettir eru hér á landi á verknaðarstundu og varða brotin við þau lagaákvæði sem þar eru tilgreind og lúta að kynferðislegu ofbeldi gegn börnum. Refsa skal í þessum tilvikum samkvæmt íslenskum lögum óháð því hvort verknaði er lýst refsiverðum í lögum þess lands sem brot er framið í.

Það er merkilegt ákvæði sem hér er verið að innleiða og því ber að fagna. Sömuleiðis ber að fagna því sem rætt er um í 3. gr. um fyrningarfrest og síðan í 6. gr. þar sem það nýmæli er lagt til að því verði lýst sem refsiverðri háttsemi að framleiða, flytja inn, afla eða hafa í vörslu sinni efni þar sem einstaklingar sem náð hafa 18 ára aldri eru í hlutverki barns á kynferðislegan eða klámfenginn hátt. Í b-lið er lagt til að lögfest verði sérstakt refsiákvæði í almennum hegningarlögum sem tekur á því ef börn eru ráðin til að taka þátt í nektar- eða klámsýningum eða öðrum sýningum af kynferðislegum toga. Ég held að það skipti verulegu máli sem hér er lagt til. Samhliða því leggur nefndin til að skoðaður verði sérstaklega sá munur sem er á refsihámarki milli annars vegar 200. og 201. gr. almennra hegningarlaga og hins vegar 202. gr. laganna. Nefndin telur mikilvægt að farið verði yfir samhengi framangreindra ákvæða kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga í því skyni að endurskoða greinarmun á refsihámarki eftir því hvort barn tengist geranda eður ei.

Virðulegur forseti. Hér er stigið framfaraskref ef hægt er að tala um framfaraskref í málum af þessum toga. Ég lýsi mig samþykka því nefndaráliti sem hv. þm. Þuríður Backman mælti fyrir.