140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjald og eignir Landsbankans.

[10:54]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram hjá Landsbanka Íslands að áhrif veiðifrumvarpanna sem nú liggja fyrir Alþingi á stöðu bankans séu neikvæð upp á 31 milljarð kr. Nú liggur nokkurn veginn fyrir með hvaða hætti hugmyndin er að afgreiða þessi mál. Það er að sönnu búið að gera tillögur um breytingar á veiðigjaldinu en engar breytingar sem máli skipta á sjálfu veiðifrumvarpinu þannig að heildarmyndin er nokkurn veginn sú sama. Þetta er auðvitað mjög alvarlegt vegna þess að ríkissjóður á mestan hlut í Landsbankanum.

Þó að þetta sé nógu alvarlegt, 31 milljarðs króna minnkun á eignum Landsbankans vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar, þá er það ekki nema toppurinn á ísjakanum. Af hverju er það? Jú, það er þannig að þegar nýi bankinn var stofnaður voru eignir teknar á undirvirði á milli nýja og gamla bankans og hugmyndin var síðan sú að þessar eignir yrðu endurmetnar þannig að virðisaukinn rynni að 85% til gamla bankans og 15% til nýja bankans. Það er þess vegna alveg ljóst mál að allar aðgerðir af hálfu ríkisins gætu haft áhrif á þetta og er beinlínis gert ráð fyrir því í skuldabréfinu að ef ríkissjóður eða ríkisvaldið grípur til aðgerða sem rýrir þessa stöðu er hið opinbera eða nýi bankinn ábyrgur. Með öðrum orðum, ef sú virðisrýrnun á sér stað sem núna blasir við, þá lendir þetta sem viðbótarhögg á nýja bankanum. Höggið verður sem sagt mun meira en sem nemur þessum 31 milljarði. Þetta hefur áhrif á skuldabréfið og nú spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Hafa þessi mál verið skoðuð sérstaklega? Hefur hæstv. fjármálaráðherra kynnt sér þetta mál sérstaklega? Hefur hæstv. fjármálaráðherra rætt það við forustumenn Landsbankans með hvaða hætti verði brugðist við ef þessi staða kemur upp? Og ef svo ólíklega vill til, sem við vonum auðvitað að gerist ekki, að bréfið gjaldfalli af þessum ástæðum þá er það þannig (Forseti hringir.) að kröfuhafarnir, gamli bankinn, munu eignast nýja Landsbankann að fullu.