140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjald og forsendur fjárlaga.

[11:05]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Þetta svar hjá ráðherra var verulega rýrt. Ekki kom neitt svar frá hæstv. ráðherra um hvort gjald upp á 11 milljarða sem reiknað er með í fjárlagagerðinni sé hóflegt, hvað þá það 15 milljarða gjald sem meiri hluta atvinnuveganefndar lagði til og ráðuneyti sjávarútvegsmála ætlar að skila inn.

Það kom heldur ekki skýrt svar um hvort stefna ríkisins sé að viðhalda lágu gengi og pína þannig fjármuni út úr sjávarútveginum með því að halda viðvarandi lágum launum og vandræðagangi í atvinnulífinu, en bent hefur verið skýrt á það. Og þegar sérfræðingar, sem fylgdu frumvarpinu og mátu það síðan, segja í greinargerð með því að um 80% af krókaaflamarkskerfinu fari á hausinn, strandveiðarnar geti ekki greitt gjaldið og fjölmargar útgerðir í stærra kerfinu muni fara á hausinn og verða gjaldþrota, er óskiljanlegt (Forseti hringir.) að ekki skuli vera tekið tillit til þess. Ég vil því fá skýrt svar frá fjármálaráðherra um hvað hún geri ráð fyrir að geta fengið út úr þessu veiðileyfagjaldi í ár og næstu ár og hversu hóflegt ráðherrann telur gjaldið vera.