140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

menningarminjar.

316. mál
[12:40]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni um þetta frumvarp til laga um menningarminjar. Það á sér langan aðdraganda, var áður lagt fram á 139. þingi ásamt öðrum frumvörpum sem tengdust því beint, en þá þótti þáverandi menntamálanefnd undir forustu Skúla Helgasonar málið ekki nægjanlega þroskað til að það fengi afgreiðslu og var það aftur tekið til umræðu á þessu þingi.

Þessi lög eru bragarbót í því heildarsamhengi sem lög um menningarminjar eru og hafa verið afgreidd frá þinginu. Ég tek hins vegar undir með hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni að það er ástæða til að kalla málið inn á milli 2. og 3. umr. vegna þeirra athugasemda sem hafa borist. Ég ítreka þó það sem ég sagði í ræðu minni í gær: Það er ekki samasemmerki á milli þess að taka málið inn á milli 2. og 3. umr. og að nefndin ætli að breyta því, en hún ætlar að hlusta.