140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:49]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni um að það er ákaflega mikilvægt að standa vörð um hagkvæmni í sjávarútveginum. En þegar hv. þingmaður segir að ekki sé við hann að sakast í því sem við ræðum hér er það ekki alls kostar rétt því að hv. þingmaður sat á stóli sjávarútvegsráðherra og hafðist ekkert að árum saman um að tryggja sæmilegan frið um sjávarútveginn, um að tryggja almenningi eðlilegt endurgjald.

Þegar ég kom á þing fyrir níu árum síðan var endurgjald fyrir aðgang að auðlindinni nánast ekki neitt og það reis hæst í upphafi þessa kjörtímabils og nam þá 2 kr. á kíló, 2 kr. á þorskkíló, 1 kr. á hvert kíló sem veitt er þegar uppsjávartegundirnar eru teknar með.

Hér kemur hv. þingmaður, eftir að hafa haldið svona illa á hagsmunum almennings, og skammar okkur sem erum þó að sækja hagsmuni almennings í málinu. Ég hlýt að spyrja hv. þingmann þegar hann segir að við núverandi (Forseti hringir.) aðstæður ráði greinin ekki við nema 10 milljarða veiðigjald: Heldur hv. þingmaður því fram að sjávarútvegurinn geti ekki greitt nema 14 eða 15 kr. fyrir hvert þorskkíló? (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Er verið að bjóða upp á slíkt tal í opinberri umræðu? Allir þeir sem eitthvað þekkja til (Forseti hringir.) í íslenskum sjávarútvegi vita að hann ræður við miklu meira (Forseti hringir.) en 14–15 kr. á þorskkíló.