140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:12]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að hafa örfá orð um það sem hv. þingmaður sagði. Ég held að það sé rétt að það sé mikill samhljómur um að ná niðurstöðu varðandi veiðigjaldið. Hins vegar ekki komin fram leið sem hægt er að fara þannig að menn fara þá einhverja bráðabirgðaákvæðisleið til þess að standa undir þeim kröfum sem fjárlagagerð næsta árs gerir, en við megum ekki ganga það langt að mörg fyrirtæki fari á hausinn. Við erum á leið út úr kreppu. Fyrirtækin eru á leið út úr kreppu. Þau þurfa ákveðinn tíma. Það þurfa allir ákveðinn tíma. Ríkisvaldið eitt og sér getur ekki sagt: Við ætlum okkur allan þennan skerf. Þið getið bjargað ykkur eins og ykkur sýnist. Það er ekki hægt.

En varðandi hinn þáttinn held ég að það sé líka tækifæri til að ná sátt um breytingar á stjórn fiskveiða en til þess þarf meiri tíma. Það þarf að hafa samráð við fleiri aðila en ég held að það sé mögulegt ef menn meina eitthvað með þeirri markmiðssetningu sem fram hefur komið, þá er enginn vandi að útfæra það. Það þýðir ekki að koma fram með frumvörp sem ganga þvert gegn markmiðunum eins og bæði þessi frumvörp gera, því miður.