140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:09]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og ég vil segja að það kveður svolítið við annan tón. Það kveður við þann tón sem við heyrum hjá ákveðnum þingmönnum stjórnarflokkanna í þessu máli. Þarna kristallast kannski vandamálið í hnotskurn sem við stöndum frammi fyrir, það er þessi mikla óeining innan stjórnarflokkanna um það hvernig eigi að ljúka þessum málum. Það er hið sorglega í málinu.

Við getum deilt um það veiðigjald sem lagt er á samkvæmt því frumvarpi sem við erum að ræða nú. En það hefur komið skýrt fram, bæði frá þeim sérfræðingum sem nefndin fékk til að vinna fyrir sig og okkur sem höfum talað hér fyrir hönd stjórnarandstæðinga, að ekki er hægt að ræða þetta mál öðruvísi en í samhengi, þ.e. að við vitum niðurstöðuna í fiskveiðistjórnarmálinu áður en við tökum til við að ákveða þessi veiðigjöld, það er algjört grundvallaratriði. Það er því nánast einboðið fyrir ríkisstjórnarflokkana að taka málið eða gera bara hlé á umræðunni og ljúka þessari vinnu.

Við getum síðan tekist á um það hvort veiðigjaldið á að vera einhver X-upphæð eða einhver aðeins hærri X-upphæð. Það er eitthvað sem örugglega ekki allir verða sammála um á endanum. En það var samt sem áður niðurstaða sáttanefndarinnar að menn mundu ná einhverju saman og lenda því þar.

Mig langar aðeins að spyrja hv. þingmann, hann talar um að markaðsvæðingin hafi verið stærstu mistökin. Á sama tíma talar hann um að við séum búin að þróa hér hagkvæmasta og arðsamasta sjávarútveg í heimi með gríðarlegum gróða. Mig langar til að hann skýri það aðeins út fyrir mér hvort þetta séu ekki einmitt afleiðingar þeirrar markaðsvæðingar og breytingar sem við fórum í. Eins langar mig að spyrja hv. þm. Helga Hjörvar: (Forseti hringir.) Nú er verið að tala um að um 4 milljarðar af þessu veiðigjaldi verði til þess að borga rekstrarkostnað við þær stofnanir (Forseti hringir.) sem þjónusta sjávarútveginn eins og Hafrannsóknastofnun og Fiskistofu. (Forseti hringir.) Fyndist honum koma til greina, er hann sammála mér í því að skoða ætti að færa rekstur þeirra stofnana undir aðila vinnumarkaðarins, (Forseti hringir.) koma því af ríkinu? Þeir væru líklegri miðað við þá þekkingu, reynslu og hagræðingu sem þeir hafa farið í gegnum til að gera það enn ódýrar og fella þar með (Forseti hringir.) niður þau gjöld þá.