140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

skuldamál heimilanna og umboðsmaður skuldara.

[10:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég skil það sem svo að ekki sé neinna aðgerða að vænta, það sé ekkert í pípunum hjá ríkisstjórninni varðandi frekari aðgerðir þrátt fyrir að komið hafi verið á fót einhverri ráðherranefnd og öðru slíku. Hæstv. forsætisráðherra nefnir fyrst og fremst aðgerðir vegna lánsveða en allir hafa fylgst með því að það hefur hvorki gengið né rekið í þeim efnum.

Ég skil það sem svo að ekki sé að vænta neinna frekari aðgerða af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég vil vekja athygli forsætisráðherra á því að lögmenn mæla nú í auknum mæli með því við skuldara að þeir fari gjaldþrotaleiðina vegna þess hversu seinvirk hin úrræðin eru, hversu illa þau ganga, vegna þess hversu mörg ár menn þurfa að skuldbinda sig í greiðsluaðlögunarferlinu og hversu þröngur stakkur þeim er sniðinn í því úrræði. Þetta er að gerast núna á árinu 2012, þremur og hálfu ári eftir að bankarnir féllu og þessi vandræði urðu til.