140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

framhald þingstarfa.

[11:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki alveg hvort ég á að elta ólar við orð hæstv. forsætisráðherra en auðvitað er það rétt, sem hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir benti á, að hæstv. forsætisráðherra á þann titil að hafa talað hér lengst, og ber það með sóma, finnst mér, og ekkert við það að athuga.

Mig langar hins vegar að minna á að fyrir nokkru ræddum við um stjórnarráðið sem miklar deilur voru uppi um. Síðan ræddum við um breytingar á stjórnarskránni sem mjög miklar deilur voru um. Bæði málin voru mikil áherslumál hæstv. forsætisráðherra. Á þann hnút hjó hæstv. forseti með því að semja við stjórnarandstöðuna. Síðan tókum við dag um daginn þar sem nokkuð mörg mál fóru í gegn. Það hefur því ekki skort á vilja, frú forseti, til að koma málum í gegn.

Það verður heldur ekki horft fram hjá því að flest af þessum stærstu deilumálum sem nú eru í þinginu komu mjög seint inn í þingið. Það er því mjög eðlilegt að um það séu deildar meiningar að þau séu til þess bær að fara í gegn, eins og þau eru útbúin í dag.