140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

framhald þingstarfa.

[11:23]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ekki er annað hægt en koma hingað upp og gera athugasemdir við það enn og aftur að því sé haldið fram að stjórnarandstaðan haldi málum í gíslingu. Við höfum talað dágóða stund í ákveðnum málum en það er ekki að tefja meðferð þeirra mála sem enn eru í þingnefndum, stærstu mála þessarar ríkisstjórnar — fiskveiðistjórnarmálið, rammaáætlun, þessi stóru mál eru þar inni á forsendum ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans á Alþingi. Ástæðan fyrir því er sú að það er svo mikil óeining þar innan dyra.

Þessar fullyrðingar eru allar í ætt við þær fullyrðingar sem komu frá forustumönnum ríkisstjórnarflokkanna, t.d. frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, núna um helgina. Hann talar um að frá áramótum, eða síðan hann kom í ráðuneytið, hafi tugir funda verið haldnir með hagsmunaaðilum um sjávarútvegsmál og var hann þar óbeint að gagnrýna fyrrverandi ráðherra fyrir að hafa ekki haldið fundi.

Staðreyndin er sú að við (Forseti hringir.) spurðum hvern einasta hagsmunaaðila, hvern og einn einasta sem kom á fund nefndarinnar, úr verkalýðshreyfingunni, úr útgerðargeiranum, (Forseti hringir.) úr fjármálageiranum, úr sveitarstjórnunum: Var eitthvert samráð? Það var ekkert samráð, ekki neitt. Þetta er svona álíka mikil lygi sem verið er að (Forseti hringir.) halda fram núna af hálfu þingmanna stjórnarmeirihlutans (Forseti hringir.) eins og þessi lygi ráðherra um samráð í þessum mikilvægu málum.