140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

framhald þingstarfa.

[11:29]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Talandi um sanngirni og ósanngirni þá er þessi sífellda krafa um að sýna þurfi sáttavilja, það þurfi að eiga samtal í þessum fiskveiðistjórnarmálum, það þurfi að ná lendingu í sátt við alla aðila, þetta er búið að hljóma í á fjórða ár. Á fjórða ár eru stjórnvöld búin að eiga í nánast linnulausri samræðu við hagsmunaaðila í sjávarútvegi varðandi þær breytingar sem stefnt er að á fiskveiðistjórnarkerfinu. Þetta samtal stendur enn yfir og það er engin sanngirni í því að halda því síðan fram æ ofan í æ að stjórnvöld vilji ekki hlusta og hér sé verið að bera menn ráðum. Það er ekki þannig.

Nú er staðan þannig í hv. atvinnuveganefnd að fulltrúar stjórnarandstöðunnar þar vilja kalla eftir nánast öllum hagsmunaaðilum greinarinnar aftur á fund nefndarinnar til að hefja hringekjuna upp á nýtt. (Forseti hringir.) Þetta eru leiktjöld, frú forseti, þetta eru sjónhverfingar og þetta er ekki barátta (Forseti hringir.) fyrir almannahagsmunum heldur sérhagsmunagæsla.