140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Við höfum nú hlustað á marga stjórnarliða, sér í lagi úr öðrum stjórnarflokknum, Vinstri grænum, gagnrýna Landsbankinn mjög harkalega fyrir lokanir á útibúum víðs vegar um land. Mörgum okkar finnst svolítið sérstakt að stjórnarflokkur mótmæli þessu svo kröftuglega á sama tíma og hann leggur mögulega til miklu afdrifaríkari tillögur um jafnvel sömu byggðarlög. Þá á ég við þetta veiðigjaldafrumvarp og fyrirliggjandi sjávarútvegsfrumvörp.

Það er frétt á mbl.is frá Grímsey, ég held að það sé reyndar ekki verið að loka bankaútibúi þar, með viðtali við útgerðarmann sem rekur fjölskyldufyrirtæki sem 18 einstaklingar vinna hjá. Í þessu viðtali segir, með leyfi forseta:

„Það er alltaf talað um að þessir útgerðarmenn séu verstu glæpamenn. En það er ekki talað við fólkið sem vinnur hjá okkur. Við erum fjölskyldan eins og hún leggur sig í þessu. Börn og allt saman sem lifa á þessu.“

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sem er úr Norðausturkjördæmi og þekkir vel til akkúrat þessa byggðarlags, Grímseyjar, geti tekið undir og vottað það sem hér er sagt, að meira og minna séu þetta einstaklingar og fjölskyldufyrirtæki á þessari eyju sem eru að reyna að sækja sjóinn og halda sínu samfélagi og fjölskyldum gangandi. Þarna er allur flotinn í höfn, bæði þeir sem eru innan vébanda Landssambands íslenskra útvegsmanna og þeir sem eru þar ekki. Hvert einasta skip, hver einasti bátur er í höfn í Grímsey til að mótmæla þessum frumvörpum ríkisstjórnarinnar. (Gripið fram í: Rétt.)