140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:40]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Það er ósköp eðlilegt að það komi svona harðorð ályktun frá Vestmannaeyjum. Það samfélag byggir í rauninni tilveru sína á sjávarútvegi, þessi útvörður Íslands í suðri. Þar brennur þetta heitast á fólki, það skilur manna best hvaða áhrif inngrip stjórnvalda í þessa atvinnugrein þýðir fyrir það samfélag sem þar þrífst.

Svo einkennilegt sem það er nú er þeim athugasemdum sem Vestmannaeyjar eða önnur samfélög og byggðir í kringum landið senda stjórnvöldum um að vanda sig, gera fólki kleift að komast í gegnum þennan skafl, gera fólki kleift að skilja hvað stjórnvöld eru að hugsa, er ekki svarað með rökum. Nei, þeim var meðal annars svarað með þeim hætti sem hæstv. sjávarútvegsráðherra setti fram á sjómannadaginn þar sem hann orðaði þetta svo snyrtilega, með leyfi forseta:

„Deilumál munu leysast, sólin heldur áfram að koma upp á morgnana, árstíðirnar hafa sinn gang, börnin vaxa úr grasi. Með öðrum orðum; lífið heldur áfram þrátt fyrir alla heimsins taugaveiklun og æsing.“

Maður spyr sig bara: Hvað er í gangi? Í hvaða raunveruleikasambandi eru íslensk stjórnvöld við almenning í þessu landi (BJJ: Engu.) þegar þau gefa til kynna að menn geti bara yljað sér við sólina á morgnana í stað þess að greiða orkureikninginn, af lánunum sínum eða guð má vita hvað? Þetta reddast, það er það viðhorf sem birtist í þessum orðum. Njótið bara veðurblíðunnar á meðan á henni stendur.

Það er ekki nokkur skynsemi í þessu og engin ábyrgð fólgin í því hvernig almenningi í þessu landi er svarað um þau áhrif sem þetta ógnarfrumvarp kann að hafa á afkomu þeirra á komandi missirum.