140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:43]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég kem hingað til að ræða fundarstjórn forseta, hvort hæstv. forseti hafi gert nefndarmönnum meiri hlutans í atvinnuveganefnd grein fyrir því að hér fer fram efnisleg umræða um framtíðarfyrirkomulag fiskveiðistjórnarkerfisins. Undir ágætri ræðu hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar sat einungis einn stjórnarliði, hæstv. ráðherra Guðbjartur Hannesson.

Næst á mælendaskrá er hv. þm. Eygló Harðardóttir sem ég veit að hefur búið sig mjög vel undir þessa umræðu. Það er ekki hægt að bjóða okkur upp á það, eða þjóðinni, þegar við ræðum um það að 35 þús. Íslendingar eiga með einum eða öðrum hætti afkomu sína undir sjávarútveginum, að hér skuli ekki einu sinni sitja í salnum og koma til umræðunnar fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í atvinnuveganefnd Alþingis, þ.e. þeir sem bera þetta mál uppi.

Ég fer því fram á það við frú forseta að hún geri hv. þingmönnum sem hafa flutt þetta mál hér grein fyrir því að við óskum eftir nærveru þeirra og að það sé ætlast til þess að þeir taki þátt í efnislegri umræðu um þetta mál.