140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

störf þingsins.

[10:31]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að gagnrýna harðlega pólitískan skæruhernað Landssambands íslenskra útvegsmanna gagnvart löngu tímabærum breytingum á kvótakerfinu. Kyrrsetning fiskveiðiflotans við bryggju alla þessa viku er ólögleg aðgerð og siðlaus og undir liggur lítt dulbúin hótun LÍÚ um að þetta sé einungis fyrsta aðgerðin, forsmekkurinn að því sem koma skal. Það er viðbúið að kjör landverkafólks í fiskvinnslu víða um land muni skerðast svo um munar ef svo heldur fram sem horfir.

Deilan snýst í raun um hvort þjóðin eigi að njóta eignarhalds á auðlind sinni eða hvort auðlindaarðurinn, sem undanfarið hefur numið tugum milljarða kr. á ári, allt upp í 75 milljarða, eigi áfram að renna að mestu í vasa útgerðarmanna í landinu.

Höfum í huga forsögu þessa máls og tilurð kvótakerfisins á sínum tíma fyrir tæpum 30 árum. Þar er lýsandi þessi frásögn manns sem þá var í hringiðu atburðanna, með leyfi forseta. Þar segir:

„Kvótakerfinu var komið á með hraði um áramótin 1983–1984. […] Hins raunverulega uppruna kvótakerfisins þarf ekki að leita langt yfir skammt. Fiskiþing gerði samþykkt um fyrirkomulag fiskveiðistjórnar haustið 1983 þar sem sjónarmið Landssambands íslenskra útvegsmanna varð ofan á. Landvinnslan og þeir sem vildu að fiskveiðiheimildir fylgdu byggðum urðu undir. […] Þegar hagsmunaaðilar í útgerð höfðu komið sér saman um nýtt fiskveiðistjórnarkerfi treystu stjórnmálamenn sér ekki til að ganga gegn þeirri niðurstöðu. Halldór Ásgrímsson studdi stefnu LÍÚ og féllst á rök útgerðarmanna fyrir kvóta á skip.“

Þetta sagði Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og sjávarútvegsráðherra í ævisögu sinni fyrir nokkrum árum. Frásögn hans staðfestir að kvótakerfið var skilgetið afkvæmi LÍÚ sem berst nú hatrammlega gegn því að þjóðin fái sanngjarna hlutdeild í auðlindaarðinum og aukins jafnræðis verði gætt við úthlutun nýtingarleyfanna. Þar skal beitt amerískri áróðurstaktík, en forsvarsmenn LÍÚ skulu hafa í huga að hótanir, ofbeldi og skemmdarverk eru ekki (Forseti hringir.) vænlegar aðferðir til að ná fram niðurstöðu í málum sem varða grundvallarhagsmuni þjóðarinnar.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur mun ekki láta kúga sig til hlýðni í fiskveiðistjórnarmálinu (Forseti hringir.) eins og ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gerðu í áratugi.