140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:56]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég held að það sé mikið til í þessu hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, að einhvern veginn tekst ríkisstjórninni alltaf að lenda upp á kant við allt og alla. Við sjáum til dæmis hér í hv. Alþingi að bragurinn á þinginu er náttúrlega enginn. Hér eru stöðugar deilur og það virðist ekki vera hægt að koma neinu máli áfram án þess að það leiði til átaka þrátt fyrir að í grundvallaratriðum eigi málin, flestöll mál, að vera þannig að menn ættu að geta sameinast um þau.

Ég held að þetta lýsi bara einu, karakter hæstv. forsætisráðherra. Karakter hæstv. forsætisráðherra er þannig að oft eru mikil átök. Það eru átök og hótanir og ljóst er að þegar það leiðir inn í og raunverulega þyngir skapgerð verkstjóra ríkisstjórnarinnar þá fer eins og fer hérna stundum hjá okkur að mikil átök verða og oft hatrammar deilur hér inni.

En það leiðir lengra, það leiðir út í þjóðfélagið, til hagsmunasamtaka og út til almennings. Núna er hæstv. forsætisráðherra komin í persónulegt stríð, er reyndar búin að vera í persónulegu stríði lengi við LÍÚ. Ég held að það breytist ekki fyrr en hér verði skipt um forsætisráðherra og til valda komist manneskja (Forseti hringir.) sem er tilbúnari til sátta en núverandi forsætisráðherra.