140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

skert þjónusta við landsbyggðina.

[14:14]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það er skiljanlegt að fólk vítt um land vilji hafa bankaútibú á sínum stað svo það séu fleiri störf í heimabyggð. Staðreyndin er engu að síður sú að íslenska bankakerfið er allt of stórt. Starfsmenn eru einfaldlega of margir, útibúin of mörg og almenningur á Íslandi ber kostnaðinn af því. Þetta er bara mjög einfalt mál og ég tel að stjórnmálamenn eigi að tala um þetta eins og það liggur hreint og klárt fyrir. Það þýðir í rauninni ekkert að skjóta sér á bak við það út af ríkisbankanum að einhver annar beri ábyrgð á þessu en ríkisstjórnin eða eigandi bankans. Það segir í eigendastefnu ríkisins að stjórn og starfsemi opinbers eignarhalds eigi að styðja við og vinna að markmiðum eigenda. Til að svo megi vera þarf aðkoma eigenda að stefnumörkun og markmiðum félagsins að vera skýr og ótvíræð. Enn fremur segir í eigendastefnunni að félagið skuli vinna að þeim samfélagslegu markmiðum sem eigandi stefnir að með eignarhaldinu.

Að sjálfsögðu starfar þessi banki á ábyrgð ríkisstjórnar hverju sinni sem fer með eignarhaldið. Þrátt fyrir það reyna menn að skjóta sér á bak við Bankasýsluna eða jafnvel eins og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra gerði í viðtali við Ríkisútvarpið, reyndi að koma ábyrgðinni yfir á fjármálaráðherra. Hver og einn veltir þannig vandanum yfir á einhvern annan en sjálfan sig í þessu máli. Það er furðulegt að horfa upp á þennan tvískinnung í umræðunni. Menn í stjórnarliðinu eru æfir yfir einhverjum störfum í þessari starfsemi sem vissulega er yfirmönnuð en á sama tíma vinna þeir að framgangi frumvarpa þar sem mat þeirra sem gerst þekkja er að þar muni fækka um fleiri hundruð störf í einni atvinnugrein í tilteknum bæjarfélögum úti um land, þ.e. í sjávarútvegi. Svo standa menn hér á blístrinu af hneykslun yfir einhverju sem þeir hafa sjálfir ákveðið, með afskiptaleysi hugsanlega, um leið og þeir tala fyrir því að leggja niður störf í tugatali, svo maður tali nú ekki um áhrifin af því frumvarpi um veiðiskattinn sem Landsbankinn sjálfur (Forseti hringir.) hefur metið að verði tap upp á 31 milljarð kr. Hvernig ætla menn að koma þessu öllu (Forseti hringir.) heim og saman?