140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:33]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um veiðigjöld. Ég mun í þessari ræðu minni fara svolítið vítt og breitt um þetta frumvarp og þau frumvörp sem eru í farvatninu og um mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar sem sjávarútvegurinn er.

Við vitum öll að sjávarauðlindin er takmörkuð. Þess vegna er fiskveiðistjórn nauðsynleg svo ekki verði gengið óhóflega að auðlindinni. (JBjarn: Nei, nei, nei, nei, nei …) Núverandi fiskveiðistjórnarkerfi var fyrst sett á laggirnar eftir takmarkalausa ofveiði um áratuga skeið og til þess gert að vernda auðlindina og gera hana sjálfbæra. Samhliða, virðulegur forseti, höfðu menn ekki rætt hugsanlegar afleiðingar sem slíkt kerfi gæti haft á byggðaþróun í landinu. Ýmsir gallar hafa komið í ljós og sum sveitarfélög farið halloka. Til þessara þátta verður að líta þegar breyta á núgildandi fiskveiðistjórnarkerfi.

Framsali kvóta hefur bæði verið hrósað og andmælt. Ég er þeirrar skoðunar, virðulegur forseti, að þá sem hafa yfir að ráða kvóta eigi að hluta að skylda til veiða. Það á enginn að geta eingöngu haft sitt lifibrauð af því að leigja kvóta. Mér er jafnljóst, virðulegur forseti, að um þessa skoðun eru deildar meiningar.

Í ljósi þess sem til stendur að gera í fiskveiðistjórnarkerfinu og veiðigjöldum eins og þau liggja fyrir er fróðlegt að skoða það sem aðrir en við Íslendingar höfum að segja um það kerfi sem er við lýði. Í The Economist segir að íslensk veiðistjórnun sé ein sú besta í heimi. Svo virðist sem flestir aðrir en ríkisstjórn Íslands sjái kosti íslenska fiskveiðistjórnarkerfisins. Þykir hún, þ.e. stjórnunin, til fyrirmyndar víða í heiminum, bæði vegna hagkvæmni veiðanna og ekki síður vegna takmörkunar á sókn í fiskstofna. Í nýjasta hefti The Economist er fjallað um þann árangur sem bandarísk fiskveiðistjórn hefur náð eftir áralanga ofveiði og nú er talið að 79% þeirra 250 stofna sem fylgst er með á bandarísku hafsvæði séu ekki lengur ofveiddir. Í greininni segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Nú er svo komið að bandarískur sjávarútvegur er næstum því jafn vel rekinn og sá besti í heimi, í Noregi, Íslandi, Nýja-Sjálandi og Ástralíu. Engu að síður geta Bandaríkjamenn gert enn betur.“

Í síðustu viku birtist grein eftir bandaríska ráðgjafann og bloggarann Tim Worstall í vefútgáfu bandaríska viðskiptatímaritsins Forbes. Þar spyr hann hvers vegna Íslendingar ætli að eyðileggja besta fiskveiðistjórnarkerfi í heimi með fyrirliggjandi frumvarpi til laga um fiskveiðar. Víða er því pottur brotinn, virðulegur forseti, hvað varðar skoðun fólks á því hvort og þá hvað verið er að gera með fiskveiðistjórnarkerfi okkar Íslendinga og veiðileyfagjald sem fyrirhugað er að leggja á.

Hvers vegna ætlar Ísland að eyðileggja besta fiskveiðistjórnarkerfi í heimi? spyr Tim Worstall í grein í vefútgáfunni. Hann segir, með leyfi forseta:

„Nú er útlit fyrir að Íslendingar ætli að taka þann þátt út úr fiskveiðistjórnarkerfi sínu sem gerir það að verkum að það virkar; möguleikann á því að selja eða leigja aflaheimildir.“

Í grein sinni fjallar Worstall um mikilvægi sjávarútvegs fyrir íslenskt efnahagslíf. Þá nefnir hann til sögunnar þau vandamál sem fylgja nýtingu náttúruauðlinda í heiminum sem víðast hvar hefur verið misheppnuð að hans mati og hann nefnir sérstaklega til sögunnar sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Ísland sé hins vegar ein fárra undantekninga — ein fárra undantekninga. Í lok greinar sinnar segir Worstall:

„Eitt fárra landa sem raunverulega hefur tekist að fást við og leysa alvarlegt umhverfisvandamál sem fiskveiðum fylgir hefur ákveðið að eyðileggja það kerfi sem hefur skilað þessum árangri.“

Það hlýtur að vera svolítið sérstakt, frú forseti, þegar erlendir sérfræðingar sem ekki hafa neinna hagsmuna að gæta, í það minnsta ekki hér á landi, hafa þessar skoðanir á því sem við sjálf erum að leggja til.

Ég verð að segja, frú forseti, að það var frekar skondið að hlusta á umræðu hér áðan um samráðsleysi Landsbanka Íslands við hinar dreifðu byggðir landsins, þegar Landsbankinn ákvað að leggja niður útibú, fækka útibúum og fækka þar með störfum og segja upp fólki, á sama tíma og ríkisstjórnarflokkarnir eru með stórmál í bullandi ágreiningi, ekki bara innan þings heldur við samfélagið allt vítt og breitt um landið. Það er dálítið hlálegt að kalla síðan eftir eigendastefnu ríkisins í bankanum til að breyta því sem þessir sömu aðilar tala hástöfum fyrir að sé ákall þjóðarinnar um breytingu, þ.e. að fara í breytingar á sjávarútvegskerfinu og innheimta hér veiðigjald.

Virðulegur forseti. Almennt er það viðurkennt að þeir sem stunda vinnu sem byggist á leyfi stjórnvalda hafa öðlast atvinnuréttindi sem njóta verndar samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar um eignarrétt. Slík réttindi verða því ekki tekin frá viðkomandi í einu vetfangi án bóta. Til þess verður að horfa þegar ákvarðanatökur um breytingar á kerfinu eru fyrirhugaðar.

Ég hef reyndar þá trú, virðulegur forseti, að jafnt stjórn, stjórnarandstaða og hagsmunaaðilar í sjávarútvegi, fiskverkafólk, sjómenn og útgerðarmenn, nái að lokum lendingu sem er farsælust fyrir þjóðina í heild, að heildarhagsmunir ráði för en ekki sérhagsmunir, hvorki sérhagsmunir einstakra flokka, einstakra stjórnmálamanna né hugmyndafræði einstakra stjórnmálaflokka eða sérhagsmunir einstakra útgerða, heldur náum við sátt í samfélaginu um þessa mikilvægu atvinnugrein sem hér hefur verið stunduð frá aldaöðli og hefur verið undirstaða farsældar í landinu.

Ég man þá tíð, virðulegur forseti, fyrir 1983, áður en núverandi fiskveiðistjórnarkerfi kom, fædd og uppalin í sjávarþorpi úti á landi, þegar sjávarútvegurinn stýrði öllu. Þar lifðu önnur fyrirtæki á því að þjónusta sjávarútveginn og gera enn. Þá upplifðum við að ef illa gekk féll gengið eða gengið var fellt og sú aðgerð bitnaði á öllum öðrum atvinnugreinum í landinu. Ég þekki það líka af eigin raun eftir að hafa verið í innflutningi að gengið var fellt vegna þess að sjávarútvegsafurðirnar þurftu á því að halda og þjóðin þurfti, eins og sagt var stundum, á því að halda. Þá hækkuðu skuldir þeirra sem voru í innflutningi erlendis á meðan annað aflið naut hagnaðar.

Virðulegur forseti. Um þetta getum við endalaust deilt. Fortíðin er nokkuð sem við eigum að læra af. Nútíðinni lifum við í og framtíðina verðum við að móta með sem skynsamlegustum hætti í þessum málum sem öðrum fyrir land og þjóð.

Ef það er vilji löggjafans að hámarka þjóðhagslegan ávinning af sjávarauðlindinni og að sjávarútvegurinn verði arðsamur og búi við stöðugt rekstrarumhverfi virðist mér sem margar fyrirhugaðar breytingar á þeim frumvörpum tveimur sem þegar hafa verið lögð fram séu í andstöðu við þann vilja löggjafans.

Landsbankinn sem var til umræðu í sérstakri umræðu áðan er eini bankinn í meirihlutaeigu ríkisins. Hann varar eindregið við samþykkt frumvarpa sjávarútvegsráðherra í óbreyttri mynd og segir, með leyfi forseta:

„Landsbankinn gerir athugasemdir við að ekki hafi verið gerð ítarleg og nákvæm greining á áhrifum tillagnanna á raunverulegar rekstrarforsendur þeirra fyrirtækja sem nú starfa í sjávarútvegi hér á landi. Þá virðast ekki hafa verið metin heildar þjóðhagsleg áhrif frumvarpanna, þar með talin ýmis afleidd áhrif tillagnanna á atvinnu, byggðamál og samfélag.

Landsbankinn varar eindregið við samþykkt frumvarpa sjávarútvegsráðherra, annars vegar frumvarps til laga um veiðigjöld og hins vegar frumvarps til laga um stjórn fiskveiða. Sérfræðingar bankans telja að samþykkt frumvarpanna muni ekki einungis koma harkalega niður á íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum og starfsmönnum þeirra heldur verði þjóðhagslegir hagsmunir einnig fyrir borð bornir.“

Virðulegur forseti. Þetta er kannski grunnurinn að því sem menn hafa verið að ræða. Voru þessir þjóðhagslegu hagsmunir metnir af ríkisstjórnarflokkunum þegar ákveðið var að leggja þessi frumvörp fram? Mér segir svo hugur að það hafi ekki verið gert vegna þess að ég trúi því ekki að svo margir séu andsnúnir þeim hugmyndum sem ríkisstjórnarflokkarnir leggja fram einungis af vondum hvötum og af því þeir vilji ekki breyta neinu. Ég hef trú á því að margir tali um það sem skiptir verulega máli. Það hefði skipt verulega máli að skoða þjóðhagslega hagsmuni áður en þessi frumvörp voru lögð fram.

Síðan kemur annað, virðulegur forseti, sem skiptir einnig máli. Áætlað tap Landsbankans sjálfs, sem er að stórum hluta og að mestu í eigu ríkisins, vegna breytinga á frumvörpunum nemur um 31 milljarði. Ef það tap er sett í samhengi við þær skatttekjur sem frumvarpinu er áætlað að skapa kemur í ljós að frumvarpinu um veiðigjöld eru áætlaðar skatttekjur á árunum 2012–2024 sem nemur og var fyrir breytingar 36,3 milljarðar. Þær skatttekjur sem ríkissjóður hefði fengið án breytinga á fiskveiðistjórnarkerfinu og nettóáhrifin á ríkissjóð á næstu þremur árum yrðu því jákvæð um 5 milljarða ef einungis er tekið tillit til taps Landsbankans. Þess ber að geta, virðulegur forseti, að álitið er að væntanlegt tap Landsbankans, verði frumvörpin óbreytt að lögum, kunni að verða nokkuð meira. Jafnframt er þess getið að ein af alvarlegustu athugasemdum Landsbankans við frumvörpin varðar bann á framsali aflahlutdeildar frá og með árinu 2032.

Eins og ég vitnaði til áðan, þ.e. í Worstall og tímaritið The Economist, vekur það furðu manna að taka eigi út úr fiskveiðistjórnarkerfinu það sem hefur skilað hvað mestri hagkvæmni og hagræðingu. Að mati Landsbankans og vitna ég nú í hann, með leyfi forseta:

„Sérfræðingar í auðlindahagfræði eru almennt sammála um að framsal aflaheimilda gegni lykilhlutverki í að auka hagkvæmni af takmarkaðri auðlind til lengri tíma litið. Með framsali skapast forsendur fyrir því að hagkvæmari rekstur taki við af óhagkvæmari rekstri. Reynslan sýnir að framsal aflahlutdeilda hefur verið drifkraftur í þeirri miklu hagræðingu sem orðið hefur í íslenskum sjávarútvegi undanfarna áratugi og þannig stuðlað að verulega aukinni arðsemi.“

Virðulegur forseti. Það er einkum þetta framsal sem hefur farið fyrir brjóstið á mörgum og er það sem margur venjulegur maður sem ekki bindur afkomu sína við sjávarútveginn hefur horft öfundaraugum til, eða kannski ekki öfundaraugum heldur viljað að hlutirnir væru öðruvísi og ekki talið að fara ætti þannig með auðlind sjávar sem margir telja að sé í eigu þjóðar.

Ég er þeirrar skoðunar, virðulegur forseti, að hægt sé að halda framsalinu með einum eða öðrum hætti en það þurfi að binda innan greinarinnar, að binda þurfi framsalið við að sá sem kaupir eða leigir sé skikkaður til veiða. Ég hef þá trú að menn geti náð samkomulagi þar um þannig að framsal aflaheimilda samhliða veiðigjaldi verði fólki ekki jafnmikill þyrnir í augum og hefur verið hingað til.

Líka hefur verið rætt um að óvissan um hvers konar fiskveiðistjórnarkerfi taki við að loknu nýtingarleyfi dragi úr öllum langtímafjárfestingum og leiði til þess að skipin eldist, þróun og hugsanleg nýting verði minni en ella og enn og aftur að hömlurnar á framsali aflaheimilda og að lokum bann stuðli að því að hagkvæmni og hagræðing í sjávarútvegi verði almennt minni.

Virðulegur forseti. Ég velti fyrir mér hvort það ríki hjá stjórnarmeirihlutanum einhver langtímahugsun um breytingu auðlindarinnar eða hvort þetta sé eingöngu hugmyndafræðileg nálgun stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka sem kann aldrei góðri lukku að stýra. Ríkir þar langtímahugsun um félagslega og hagfræðilega hagkvæmni breytinganna? Hefur stjórnarmeirihlutinn látið reikna út hvort þessar breytingar verði til lengri tíma litið þjóðhagslega hagkvæmar? Ég held ekki.

Virðulegur forseti. Hér hafa stjórnarliðar í það minnsta talað um að verið sé að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu í þá veru að setja á veiðigjald vegna þess að þjóðin kalli eftir slíku og þjóðin vilji þetta óréttláta kerfi burt og vilji kalla yfir sig eitthvað annað. Ég tilheyri þjóðinni en í þessum ræðustól virðist alltaf vera sem þjóðin sé eitthvert afmarkað mengi sem stjórnmálaflokkar hafa eignað sér og geta vitnað til í tíma og ótíma, ótilgreint mengi sem enginn veit í raun og veru hvað er.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness gæti hugsanlega verið eitt mengi þjóðarinnar sem vísað er til þegar ríkisstjórnarflokkarnir tala um þjóðina sem vill breytingar á óréttlátu kerfi. Í umsögn Verkalýðsfélags Akraness segir, með leyfi forseta:

„Stjórn Verkalýðsfélags Akraness getur ekki undir nokkrum kringumstæðum stutt áðurnefnd lagafrumvörp“ — um stjórn fiskveiða og veiðigjald — „á meðan ekki hefur farið fram ítarleg rannsókn á hvaða áhrif þessi frumvörp hafa á atvinnuöryggi og kjör fiskvinnslufólks, sjómanna og síðast en ekki síst á byggðir þessa lands.“

Síðar segir:

„Það er mat félagsins að það svigrúm sem útgerðin hefur verði notað til að lagfæra og leiðrétta launakjör fiskvinnslufólks, en þau eru verkalýðshreyfingunni, Samtökum atvinnulífsins og útgerðinni til ævarandi skammar. […]

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness veltir því fyrir sér hvort fyrirhugað auðlindagjald sé af sama meiði og kolefnisskatturinn sem átti m.a. að leggja á Elkem Ísland fyrir áramót, en sú skattlagning stefndi atvinnuöryggi þeirra sem þar störfuðu í algjöra óvissu eins og frægt var.“

Það er algjörlega ljóst, virðulegur forseti, að stórt mengi þjóðarinnar óttast þær breytingar sem ríkisstjórnarflokkarnir hyggjast gera á fiskveiðistjórnarkerfinu og veiðigjaldinu.

Ég skora á stjórnarmeirihlutann og stjórnarandstæðinga á þingi að taka höndum saman með heildarhagsmuni þjóðar að leiðarljósi og færa þessi frumvörp í átt til sáttar en ekki sundrungar. Það hlýtur að vera meginmarkmið okkar þótt okkur greini á í pólitík að þessi helsta atvinnugrein þjóðarinnar sé stunduð í þokkalegri sátt. Verum sammála um að gera ákveðnar breytingar hvort heldur er á fiskveiðistjórnarkerfinu og/eða veiðileyfagjaldi, en gerum það í sátt en ekki sundrung. Hættum gífuryrðum um að sumir hafi rétt fyrir sér en ekki aðrir og horfum á hagsmuni þjóðarinnar í heild. Búum ekki til einstök mengi þjóðarinnar til að styrkja málstað okkar í ræðustól á Alþingi.

Það er algjörlega ljóst, virðulegur forseti, að það eru æði margir og æði margar umsagnir sérfræðinga, sveitarfélaga og hagsmunasamtaka í sjávarútvegi sem fara gegn tillögu ríkisstjórnarflokkanna. Þess vegna ítreka ég enn það sem ég sagði: Stjórn, stjórnarandstaða, hagsmunasamtök sjómanna, fiskverkunarfólks og útvegsmanna, tökum höndum saman um að breyta þessu kerfi í sátt í stað sundrungar. Við vitum að við þurfum að breyta ákveðnum þáttum. Höfum kjark til að gera það saman í stað þess að steyta hnefa hvort heldur er í sölum Alþingis eða annars staðar í samfélaginu því að það mun aldrei leiða okkur að þeim endapunkti sem við getum vel við unað þannig að sjávarútvegurinn verði í náinni framtíð rekinn með arðsemi, hagkvæmni og hagræðingu að leiðarljósi og þar af leiðandi verði öflugt atvinnulíf vítt og breitt um landið. Verum þess minnug að sjávarútvegurinn er ekki eingöngu útgerðarmenn, sjómenn og fiskverkunarfólk heldur starfar fjöldinn allur af öðrum fyrirtækjum í kringum sjávarútveginn, þjónustufyrirtækjum. Í sumum sveitarfélögum vítt og breitt um landið er engin önnur atvinnugrein sem styrkir stoðir og innviði samfélagsins meir en sjávarútvegurinn. Horfum til þessara þátta. Ég ítreka enn: Leggjum okkur fram við að ná sátt í þessu mikilvæga máli.

Virðulegur forseti. Mig langar síðan að beina orðum mínum að athugasemdum með tillögum um veiðigjald.

Ég vil taka það fram, eins og ég gerði í ræðu minni í eldhúsdagsumræðum, að ég er hlynnt því sem ég kalla veiðigjald og sumir vilja kalla skatt, en ég tel og ítreka að útfærsluna verður að vinna í samvinnu löggjafans og hagsmunaaðila með heildarhagsmuni umfram sérhagsmuni að leiðarljósi. Ég hef töluverðar áhyggjur af því að við séum að fara fram með frumvarp um veiðigjald, sem sumir vilja nefna skatt, sem við hefðum hugsanlega þurft að kanna betur í tengslum við stjórnarskrána. Í umsögnum tveggja aðila sem ég ætla að leyfa mér að fjalla aðeins um eru gerðar athugasemdir við stjórnskipuleg atriði. Mig langar, með leyfi forseta, að vitna í Helga Áss Grétarsson. Í neðanmálsgrein segir og er ekkert farið í grafgötur með það:

„Staða mín sem sérfræðings við Lagastofnun Háskóla Íslands hefur verið fjármögnuð með tveim samstarfssamningum Lagastofnunar og Landssambands íslenskra útvegsmanna.“

Helgi Áss Grétarsson er engu að síður lögfræðingur. Hann segir, með leyfi forseta:

„Í frumvörpunum er ekki að finna fullnægjandi greiningu á hvernig þau skerða stjórnskipulega verndaða atvinnuhagsmuni handhafa aflaheimilda og krókaaflaheimilda. Ekki er útilokað að samspil sumra ákvæða frumvarpanna leiði til þess að ríkissjóður verði bótaskyldur á grundvelli eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar.“

Svo segir áfram, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi til laga um veiðigjöld er lagt til að lögð verði á almenn veiðigjöld og sérstök veiðigjöld. Í skilningi laga eru þessi gjöld skattur. Yfirlýsingar um sameign þjóðar eða þjóðareign á villtum og vörslulausum nytjastofnum sjávar hagga þessu ekki.“

Virðulegur forseti. Þetta er eiginlega svolítið skemmtileg lýsing á því sem við köllum auðlind í eigu þjóðar en virðulegur lögfræðingur kallar villtan og vörslulausan nytjastofn. Það er allt í lagi að hafa að hluta til gaman að því hvaða orð menn nota máli sínu til áherslu.

Virðulegur forseti. Helgi Áss segir enn fremur að í frumvarpi til laga um veiðigjöld sé lagt til að stjórnvöldum verði falið mat við ákvörðun sérstaks veiðigjalds og þau hafi heimild til að veita undanþágur frá gjaldinu. Hann telur þessa skipan mála orka tvímælis með hliðsjón af 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar og segir, með leyfi forseta:

„Það stenst vart stjórnskipulegar kröfur um meðalhóf og jafnræði að leggja á sérstakt veiðigjald á einstaka gjaldskylda aðila á grundvelli almennra upplýsinga um rekstur fiskveiða í atvinnuskyni og enn síður á grundvelli upplýsinga um rekstur sem skattþegninn er ekki að sinna, þ.e. útgerð án fiskvinnslu. Eins og þessar frumvarpstillögur eru úr garði gerðar er líklegt að þær brjóti í bága við 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar.“

Ég held, virðulegur forseti, að í ljósi þessa sé æðimargt sem við þurfum að endurskoða og velta fyrir okkur hvað við erum að gera og hvernig vinnubrögð við á Alþingi leggjum til þegar við förum í frumvarpsgerð sem getur verið jafnafdrifarík og það frumvarp sem við ræðum hér og fleiri frumvörp sem við eigum sjálfsagt eftir að ræða.

Sömuleiðis, virðulegur forseti, segir í álitsgerð Bonafide lögmanna um veiðigjaldið, með leyfi forseta:

„Veiðigjöldin hafa öll einkenni skattlagningar.

Lagaheimild skattlagningar þarf að vera skýr og ótvíræð — 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar.“

Þetta háttvirta lögmannafyrirtæki segir að reikniregla varðandi sérstaka veiðigjaldið sé óljós og matskennd og gjaldstofninn afar óskýr.

Svo segir, með leyfi forseta:

„Afturvirk skattlagning óheimil samkvæmt 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar.“

Þar segir lögmannsfyrirtækið Bonafide:

„Af frumvarpinu er ljóst að fyrirhugað er að innheimta skatt á þessu ári, þ.e. næsta fiskveiðiári,“ — sem hefst frá og með 1. september — „á grundvelli upplýsinga um tekjur sem stofnuðust þegar skattskylda var ekki til staðar að þessu leyti.“

Er það þar af leiðandi talið brjóta í bága við 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar.

Virðulegur forseti. Enn fremur segir:

„Óheimilt er að framselja skattlagningarvald til stjórnvalda“ — eða framkvæmdarvaldsins, það er Alþingi sem hefur skattlagningarvaldið.

Því segir að sérstakri ráðherraskipaðri nefnd sé „ætlað að ákveða veiðigjaldið hverju sinni, að ýmsu leyti út frá nokkuð matskenndum þáttum […] Til dæmis miðað við reiknaða rentu vegna veiða og vinnslu án þess að fyrir liggi nákvæm skýring á því hvað fellur undir vinnslu.“

Virðulegur forseti. Við höfum oft talað um það á Alþingi að við þurfum að vanda okkur við lagasetningu. Þegar lögmenn hafa áhyggjur af því að þau frumvörp sem verið er að leggja fram gangi hugsanlega í berhögg við ákvæði stjórnarskrárinnar hlýtur löggjafinn að þurfa að fara vel ofan í saumana á slíku, hversu mjög sem hann annars kann að vera hlynntur því sem fyrir er lagt.

Ég ítreka það enn, virðulegur forseti, að ég er hlynnt veiðigjaldi en ég áskil mér þann rétt að hafa þá skoðun að aðferðafræðin við úrvinnslu slíks verði að vera í lagi lagalega séð og hún verði að vera í sátt við löggjafann og í sátt við hagsmunaaðila, þá heildarhagsmuni en ekki sérhagsmuni.

Menn hafa hins vegar, virðulegur forseti, áhyggjur af því hvort og hvernig veiðigjald komi við útgerðina. Svo virðist sem hagnaðarforsendur hafi ekki verið kortlagðar, ef við getum sagt svo, og því gæti virðisrýrnun vegna fyrirhugaðra breytinga á kerfinu í heild sinni haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir sjávarútvegsfyrirtækin í landinu.

Ég held, virðulegur forseti, að það hafi líka komið fram hjá þeim sérfræðingum Daða Má Kristóferssyni og Stefáni B. Gunnlaugssyni sem skipuðu hóp sem fór yfir þessi frumvörp að beiðni atvinnuveganefndar að þeir teldu að veiðigjöldin eins og þau komu fyrir í frumvarpinu væru á röngum grunni og aðferðafræðin væri óviðunandi. Ég held að það hljóti að vera óumflýjanlegt fyrir löggjafann, ætli hann sér að ljúka þessum málum, að hafa það fyrst og fremst á hreinu hvort þær aðgerðir sem löggjafinn hyggst stefna í hvað varðar veiðigjald séu byggðar á lagalegum grunni samkvæmt stjórnarskránni, að við förum ekki undir nokkrum kringumstæðum gegn eða sniðgöngum stjórnarskrána hvað það varðar.

Virðulegur forseti. Maður veltir því stundum fyrir sér í pólitík þegar jafnmikill ágreiningur er um frumvörp eins og þessi — það kann að vera ágreiningur innan flokka, ekki bara á Alþingi því að flokkar okkar eiga sér mun víðtækari skírskotun en seta þingmanna segir til um, ágreiningur getur verið innan allra flokka um það með hvaða hætti sé skynsamlegast og best að stjórna fiskveiðum — að okkur er algjörlega ljóst og um það erum við sammála að við ætlum ekki að stefna aftur í ofveiði einstakra stofna og stofna auðlindinni í hættu. Við ætlum að halda áfram að vernda hana til hagsbóta fyrir núverandi kynslóðir og fyrir komandi kynslóðir. Þá hljótum við að ræða um það með hvaða hætti við í heild og í sátt í samfélaginu teljum almannahagsmuni ráða umfram sérhagsmuni.

Þegar menn hafa farið mikinn og talað um að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins tölum fyrir sérhagsmunum finnst mér það ætíð vera dapurt vegna þess að ég sit hér og tala sem þingmaður sem hefur ákveðna skoðun á því að sjávarútvegurinn eigi að dafna og blómstra og skila arðsemi og hagnaði. Ég er hlynnt því að þeir sem stunda sjóinn og veiða úr þessari sameiginlegu auðlind leggi til þjóðarbúsins sérstakt gjald þar að lútandi þótt þeir séu endalaust að leggja til þjóðarbúsins í annarri mynd, svo það sé nú sagt. Það má aldrei gleyma öllum þeim ávinningi sem samfélagið hefur af sjávarútvegi, hvort heldur er í tekjum sjómanna, útvegsmannanna sjálfra eða fyrirtækjanna sem starfa í nágrenni sjávarútvegsfyrirtækjanna og þjónusta þau með einum eða öðrum hætti. Það eru heildarhagsmunir, þ.e. hagsmunir almennings í landinu, sem ráða för þegar við veltum fyrir okkur með hvaða hætti við viljum og getum breytt þessum fyrirtækjum og fiskveiðistjórnarkerfinu og hvernig við getum lagt á veiðigjald.

Við getum ekki ætlað okkur að leggja á veiðigjald eða veiðiskatt sem brýtur hugsanlega í bága við stjórnarskrána. Við getum heldur ekki ætlað okkur að leggja á veiðiskatt eða veiðigjald — mér finnst veiðiskattur bara fallegra orð, virðulegur forseti — sem stefnir fyrirtækjum stórum sem smáum með einum eða öðrum hætti í þrot. Það getur ekki verið vilji löggjafans og það getur aldrei verið í þágu almennings eða að heildarhagsmunir þjóðarinnar séu í húfi ef í slíkt stefnir. En menn greinir á um þetta.

Sveitarfélög vítt og breitt um landið hafa sent inn umsagnir til atvinnuveganefndar og tjáð ótta sinn við að alvarlegt ástand blasi við í ýmsum sjávarþorpum verði þessi frumvörp óbreytt að lögum. Fólk óttast að flótti verði einfaldlega frá þessum svæðum missi fólk vinnuna.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan. Við erum ekki eingöngu að ræða sjávarútvegsfyrirtækin sjálf, fiskverkunarfólkið og sjómennina heldur erum við líka að tala um alla þá stoðþjónustu í kringum þessi mikilvægu fyrirtæki í hverju og einu sveitarfélagi, svo ekki sé rætt um nýsköpun í tengslum við sjávarútveginn vítt og breitt. Engum hefði dottið í hug á mínum unglingsárum að úr fiskinum sem manni fannst ekki alltaf sérlega spennandi yrðu síðar búnar til snyrtivörur. Það hvarflaði ekki að mér á þeim tíma þegar ég var í gúmmístígvélum með hvíta svuntu í frystihúsinu á Akranesi og mér var alltaf kalt. Þannig hafa sprottið upp nýsköpunarfyrirtæki sem sjá sér hag í þeirri auðlind sem fiskurinn er með öðrum hætti en sjávarútvegsfyrirtækin. Hvað verður um fjárfestingar þessara fyrirtækja?

Það er svo margt, virðulegur forseti, sem tengist þessum tveimur frumvörpum sem við þingmenn jafnt sem hinn almenni borgari þurfum að ræða af yfirvegun og horfa, eins og ég tel mig hafa gert, til heildarhagsmuna en ekki sérhagsmuna. Ég trúi því og treysti að meirihlutaflokkar Samfylkingar og Vinstri grænna, ríkisstjórnin sjálf, stjórnarandstaðan og þeir aðrir sem að þessu máli geta og þurfa að koma nái sátt í stað sundrungar og að heildarhagsmunir íslenskrar þjóðar verði hafðir að leiðarljósi í þessu máli sem og öllum öðrum sem við sem löggjafi eigum að sinna.

Virðulegur forseti. Það verður spennandi að fylgjast með umræðunni á þingi og í samfélaginu á næstu vikum og mánuðum. Þetta er undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar og hefur verið frá örófi alda. Á honum munum við byggja um langa framtíð. Honum verður að tryggja hagkvæm rekstrarskilyrði, hagkvæmt umhverfi skatta, stöðugt umhverfi skatta og stöðugt rekstrarumhverfi. Þannig skilar sjávarútvegurinn landi og þjóð mestri arðsemi.