140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:30]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir hvert einasta orð sem þingmaðurinn sagði. Ég held nefnilega að gjaldið megi ekki vera óhóflegt eða íþyngjandi og þess vegna held ég að við séum að nálgast ágæta niðurstöðu. Ég vildi sérstaklega draga fram í rökræðum við hv. þingmann að um prinsippið er sátt. Um forsendurnar er rökrætt og deilt en við höfum síðustu vikuna nálgast niðurstöðu í málinu.

Ég get tekið undir allt sem hv. þingmaður sagði, líka þegar hún nefndi að vel hefði tekist til með stjórn fiskveiða á síðustu áratugum. Okkur hefur nefnilega tekist vel að vernda stofnana og byggja þá upp. Nú er og hefur verið síðan framsalið var heimilað og tilteknir aðilar seldu sig út úr greininni o.s.frv. deilt um annars vegar aðgengi að auðlindinni og hins vegar um forsendur og upphæð gjaldtökunnar fyrir aðgengi að takmarkaðri auðlind, takmörkuðum gæðum í þjóðareigu. Það er mergurinn málsins. Við erum þó komin hingað. Nú á einungis eftir að lenda því hverjar forsendurnar verða. Ég held að sé afar stutt þangað til við komumst að niðurstöðu um það.